RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Einvalalið grínista skrifar Skaupið í ár

Mynd með færslu
 Mynd:
RÚV hefur valið einvalalið grínista úr hópi umsækjenda um gerð Áramótaskaupsins árið 2017.

Leikstjórn verður í höndum Arnórs Pálma Arnarsonar sem leikstýrði og skrifaði meðal annars þættina Ligeglad sem unnu til Edduverðlauna á árinu sem besta leikna efnið. Arnór verður einnig í höfundateyminu ásamt þeim Önnu Svövu Knútsdóttur, Bergi Ebba Benediktssyni, Dóra DNA, Sögu Garðarsdóttur og Dóru Jóhannsdóttur sem leiða handritavinnuna. Dóra er upphafskona spunahópsins Improv Ísland og stundaði nám við UCB skólann í New York með sérstaka áherslu á sketsaskrif. Anna Svava og Saga hafa báðar tekið þátt í gerð Skaupsins áður en hinir höfundarnir hafa verið leiðandi í uppistandi og gerð gamanefnis á síðustu árum.

Hópurinn hefur þegar hafið handritaskrif og stríðir við það lúxusvandamál að hafa nánast af of miklu að taka. Markmiðið er að gera Skaup sem allir eiga að geta notið og stinga hæfilega fast á kýlum samfélagsins. Upptökur eru áætlaðar í nóvember en þangað til læsa höfundar sig inni á leynilegum stað og kryfja árið til mergjar.

Framleiðsla verður í höndum Glassriver sem er nýtt framleiðslufyrirtæki í eigu Baldvins Z, Arnbjargar Hafliðadóttur, Andra Óttarssonar og Harðar Rúnarssonar.