RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Eddan 2017: Fjórir af fimm sjónvarpsmönnum ársins á RÚV

Mynd með færslu
 Mynd: Eddan
Tilkynnt var um tilnefningar til Edduverðlaunanna í Bíó Paradís í vikunni. Þar var einnig frumsýnd ný Eddu-verðlaunastytta ásamt því að nýr flokkur, Sjónvarpsefni ársins, var kynntur. Áhorfendur munu koma til með að kjósa um sigurvegara í þeim flokki.

Eddan 2017 uppskeruhátíð Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar (ÍKSA), verður svo haldin hátíðleg sunnudagskvöldið 26. febrúar á hótel Hilton Reykjavík Nordica. Hátíðinni verður sjónvarpað beint á RÚV.

RÚV hlýtur (sem framleiðandi eða meðframleiðandi) 18 tilnefningar alls fyrir sjónvarpsefni og auk þess eiga dagskrárgerðarmenn RÚV 4 af 5 tilnefningum í flokkinum sjónvarpsmaður ársins – þau Brynja Þorgeirsdóttir, Helgi Seljan, Andri Freyr Hilmarsson og Ævar Þór Benediktsson. 

Eftirfarandi þáttaraðir og þættir í framleiðslu og meðframleiðslu RÚV eru tilnefndir:

Allar tilnefningar í flokki barna – og unglingaefnis ársins en þar eru Krakkafréttir, Ævar vísindamaður og Stundin okkar tilnefnd.

Allar tilnefningar í flokknum lífsstílsþáttur ársins – Ferðastiklur, Rætur og Ævar vísindamaður.

Tvær af þremur tilnefningum í flokknum frétta- eða viðtalsþáttur ársins fyrir fréttaskýringaþáttinn Á flótta og Kastljós.

Tvær af þremur tilnefningum í flokknum menningarþáttur ársins – Eyðibýli og Með okkar augum (meðframleiðsla með Sagafilm)

Allar þrjár tilnefningar í flokknum skemmtiþáttur ársins – Eddan – engri lík, Orðbragð og Áramótaskaupið 2016 (meðframleiðsla með RVK Studios).

Grafíski hönnuðurinn Nicolas Heluani er einnig tilnefndur fyrir brellur í sjónvarpsþáttunum Orðbragð.

Þrjár af fimm tilnefningum í flokknum sjónvarpsefni ársins – Ligeglad, Ófærð, Rætur.

Auk þess hlýtur þáttaröðin Ligeglad (meðframleiðsla með Filmus) tvær tilnefningar fyrir handrit og sem leikið sjónvarpsefni ársins.

Þegar allt er talið eru þær ennþá fleiri tilnefningarnar fyrir sjónvarpsþætti, stuttmyndir, heimildamyndir og bíómyndir sem RÚV kom að með einum eða öðrum hætti, sem framleiðandi, meðframleiðandi, þátttakandi í þróun og kaupandi á sýningarrétti. Auk þeirra sem tilgreindar hafa verið á RÚV aðkomu að eftirfarandi verkefnum sem hljóta tilnefningu:

Kvikmyndirnar Eiðurinn, Hjartasteinn, Sundáhrif og Fyrir framan annað fólk, heimildarmyndirnar Jökullinn logar, Keep Frozen, Ránsfengur og Baskavígin og stuttmyndin Ungar.

Allt saman myndir sem þegar hafa verið sýndar eða stendur til að sýna á RÚV innan tíðar.

Við óskum öllum þeim sem fengu tilnefningu til Eddunnar til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu. Ríkisútvarpið er stolt af sínu fólki og þakklátt fyrir tilnefningarnar.

Á vef Eddunnar má sjá öll tilnefnd verk og einstaklinga.

 

01.02.2017 kl.15:23
Samskiptasvið RÚV
Birt undir: Í umræðunni, eddan, Eddan 2017, Edduverðlaun, Í umræðunni, tilnefningar