Zika-veiran gæti smitast við kynmök

03.02.2016 - 12:26
Mynd með færslu
 Mynd: EBU
Zika-veiran gæti smitast til þriðja aðila með kynmökum. Sóttvarnarlæknir segir mikilvægt að þeir sem koma frá svæðum þar sem Zika-veiran geisar noti verjur í um tvo mánuði eftir heimkomu.

Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum tilkynntu í gærkvöld að íbúi í Texas hefði veikst af Zika-veiru eftir að hafa haft kynmök við smitaðan mann. Sá var nýkominn úr ferðalagi þar sem Zika-faraldurinn geisar. Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir segir að vísbendingar séu um að veiran geti lifað í sæði í þónokkurn tíma. Í 80% tilfella fylgja veirunni engin einkenni. „Einmitt á þeim grunni hafa margar þjóðir komið með leiðbeiningar um það að þeir sem eru að koma frá svæðum þar sem að veiran er, að þeir noti smokka í einhvern tíma eftir að þeir koma. Það er óljóst hvað sá tími á að vera langur, sumir hafa miðað við tvo mánuði,“ segir Þórólfur. Þetta gildir einkum um þá karlmenn sem eiga þungaðan maka. Svipaðar leiðbeiningar séu í smíðum hjá Landlæknisembættinu. 

Talin mjög óalgeng smitleið

Þetta er fyrsta smitið manna á milli innan Bandaríkjanna. Það þýðir að veiran gæti borist áfram til þriðja aðila með kynmökum. Eftir sem áður er talið að moskítóbit sé algengasta smitleiðin. Þetta er í þriðja sinn svo vitað sé sem Zika-veiran tengist kynmökum, hin tilfellin voru 2013 og 2008.

Ekki er vitað hvort veiran smitast frá konum við kynmök. „Rannsóknir um þetta eru bara á byrjunarstigi getur maður sagt, þannig að nú eru kannski ný gögn að koma inn í þetta mál sem að kannski leiða það í ljós að veiran geti smitast með kynmökum, það er hugsanlegt,“ segir Þórólfur.

Þungaðar konur forðist smit

Faraldurinn gengur nú yfir Suður- og Mið-Ameríku. Landlæknisembættið hefur gefið út leiðbeiningar um hvernig best er að forðast moskítóbit. Ekki hefur verið hvatt til ferðabanns til þessara landa, en þunguðum konum er ráðlagt að forðast slík ferðalög. Sterkar vísbendingar eru um að Zika-veiran geti valdið alvarlegum fósturskaða. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur lýst yfir neyðarástandi á heimsvísu vegna veirunnar.