Zika talin valda fágætum taugasjúkdómi

01.03.2016 - 04:19
epa05175479 The model of a mosquito (Culicidae) is pictured in a laboratory of the Bernhard Nocht Institute for Tropical Medicine in Hamburg, Germany, 22 February 2016. Due to the spread of Zika, Dengue and West Nile viruses, Germany is stepping up its
Líkan af moskítóflugunni sem ber Zika-veiruna.  Mynd: EPA  -  DPA
Franskir og pólínesískir vísindamenn telja sig hafa sönnur fyrir því að Zika-veiran, sem nú er landlæg í Brasilíu og víðar í Suður- og Mið-Ameríku, geti valdið fágætum en hættulegum taugasjúkdómi, Guillain-Barres heilkenni, GBS, sem veldur lömunareinkennum.

Í grein í læknatímaritinu The Lancet birta vísindamennirnir niðurstöður rannsóknar sem þeir gerðu á Zika-faraldri sem geisaði í Frönsku Pólynesíu frá október 2013 fram í apríl 2014. Á sama tíma komu upp óvenju mörg tilfelli Guillain-Barré heilkennis, GBS, sem annars er afar sjaldgæft, eða 42.

Í 41 tilfelli reyndust viðkomandi einnig hafa smitast af Zika-veirunni. Þessi óvenjulega fylgni vakti grun um mögulegt orsakasamhengi, sem þeir telja sig nú hafa staðfest eftir miklar rannsóknir.

Niðurstöðurnar benda til þess að um 24 af hverjum 100.000 Zika-smituðum muni að líkindum veikjast af GBS. Björn Olsen, prófessor í faraldsfræðum við Uppsalaháskóla, segir í samtali við sænska ríkisútvarpið að þetta sé mun meiri fylgni en menn hefðu búist við og stjórnvöld í Brasilíu, Kólumbíu og annarstaðar þar sem Zika-veiran grasseri verði að bregðast við. Ljóst sé að fjöldi Zika-smitaðra sem komi til með að þurfa á sjúkrahúsdvöl og jafnvel gjörgæslu að halda geti orðið mun meiri en reiknað hefur verið með.

Guillain-Barres heilkennið leggst á ónæmiskerfið og ruglar starfsemi þess þannig að það ræðst á taugakerfið, einkum þann hluta sem stjórnar vöðvastarfseminni. Afleiðingarnar eru misalvarleg lömunareinkenni.

Olsen segir einkennin í flestum tilfellum „einhverstaðar mitt á milli minniháttar lömunar og algjörrar lömunar.“ Í verstu tilfellunum geti sjúklingar hins vegar lamast svo mjög að þeir þurfi að vera mánuðum saman í öndunarvél áður en bráir af þeim. Þá sé alltaf hætta á því að einhverjir deyi af völdum GBS, ýmist vegna lömunarinnar sjálfrar, sýkinga á borð við lungnabólgu, sem rekja má beint eða óbeint til hennar, eða samspils hvors tveggja.