Ýmis merki um breytingar á húsnæðismarkaði

18.08.2017 - 09:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hækkanir á húsnæðisverði voru minni í júlí en verið hefur undanfarna mánuði og er það annan mánuðinn í röð sem það gerist. Enn er þó of snemmt að segja til um hvort það sé komin ákveðin mettun yfir markaðinn þar sem sumarið er oft rólegur tími í fasteignaviðskiptum. Þetta kemur fram í Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans. Þar er lagt út af tölum sem Þjóðskrá Íslands birti í gær um fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu. Verð í fjölbýli hækkaði um 0,1 prósent en sérbýli hækkaði um 1,2 prósent.

Sérstaklega er fjallað um verðþróun á fjölbýli í hagsjánni. Þar segir að ró virðist yfir þeim markaði núna, þar sem verð á íbúðum í fjölbýli hafi lækkað í júní og staðið í stað í júlí. „Kenningar um mögulega kólnun fasteignamarkaðar hafa fengið meðbyr eftir að verðtölur fyrir júní og júlí birtust. Litlar hækkanir eiga hins vegar einungis við um fjölbýli enn sem komið er, hækkanir á sérbýli eru áfram miklar. Ýmis merki eru samt sem áður uppi um að breytingar kunni að vera í vændum, en ekki er hægt að slá neinu föstu um hvort svo sé í raun og veru.“

Hagfræðideildin bendir á að verðbólga hafi verið lítil og stöðug síðustu misseri. Því hafi raunverð fasteigna hækkað mun meira en ella. Þar er vísað til verðbólgumælinga Hagstofu Íslands. Ef fasteignaverðinu er sleppt úr vísitölunni mælsti verðhjöðnun síðustu þrettán mánuði. En þegar húsnæðisverðið bætist við leiðir það til verðbólgu, sem þó hefur verið undir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands frá því í ársbyrjun 2014.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV