Yfirvöld verði að bregðast við ójöfnuði

15.06.2017 - 05:25
epa06027373 (02/22) School children stroke a Lipizzaner during a visit by home-schooled children to the South African Lipizzaners school in Johannesburg, South Africa, 02 June 2017. The visits help connect children with the horses as well as offering a
 Mynd: EPA
Eitt af fimm börnum í ríkustu löndum heims býr við fátækt, samkvæmt skýrslu Unicef, barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, sem birt var í dag. Bandaríkin, Bretland og Nýja-Sjáland koma einna verst út en þar hafa milli fimmtán og tuttugu prósent barna ekki tryggt aðgengi að næringarríkum mat.

Í skýrslunni segir að engin fylgni sé milli efnahagsástands, sem yfirleitt sé gott í þessum ríkjum, og fátæktar. Yfirvöld verði að grípa til aðgerða gegn ójöfnuði. Ef ekki eigi 167 milljónir barna eftir að búa við sára fátækt árið 2030. Í dag eru börn nærri helmingur þeirra 900 milljóna manna sem draga fram lífið fyrir jafnvirði um 250 íslenskra króna á dag.

Í skýrslu Unicef er litið til fjölda þátta til að varpa ljósi á stöðu barna og unglinga um allan heim. Þar er meðal annars litið til menntunar, andlegrar heilsu, efnahags og félagslegrar stöðu. 41 af ríkustu löndum heims er raðað niður á lista, Þýskaland og Norðurlöndin eru efst en Rúmeníu, Búlgaríu, Bandaríkin og Chile skrapa botninn. Í flestum ríkjanna hafa geðræn vandamál unglinga aukist til muna og ástæða er talin til að vekja athygli á menntamálum. Jafnvel í Japan og Finnlandi, sem þykja standa sig ríkja best á þeim vettvangi, er um fimmtungur fimmtán ára barna sem ekki lýkur grunnmenntun. 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV