Yfirheyrðir vegna líkamsárásar á Grensásvegi

18.05.2017 - 16:05
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Þrír karlmenn hafa verið teknir í skýrslutöku vegna líkamsárásar á gatnamótum Grensásvegar um klukkan hálf eitt í nótt. Enginn er þó í haldi lögreglunnar og engin kæra hefur verið lögð fram. Að sögn Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu virðist árásin hafa verið tilefnislaus en mennirnir eru sagðir hafa ráðist á mann sem svínaði fyrir þremenningana skömmu áður.

Lögreglan segir mennina þrjá hafa veitt manninum eftirför á bíl sínum og ráðist svo á hann þegar hann þurfti að stoppa á rauðu ljósi við Grensásveg. Einn árásarmannanna er grunaður um að hafa notað verkfæri sem líktist kúbeini við árásina. Maðurinn sem ráðist var á hlaut töluverða áverka en er þó ekki alvarlega slasaður.

Nokkur vitni urðu að árásinni og hafa þau afhent lögreglu upptökur af atburðinum og mun lögreglan nú vinna úr þeim ásamt öðrum gögnum málsins. Kæra hefur ekki verið lögð fram en að sögn lögreglunnar er búist við henni fljótlega. 

Mynd með færslu
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV