Yfirburðasigur Trumps í Nevada

24.02.2016 - 06:18
epa05177809 (FILE) A file picture dated 22 February 2016 shows US Republican Presidential candidate businessman Donald Trump looking on as he addresses supporters during the 'Donald J. Trump for President Rally' at South Point Arena in Las Vegas
 Mynd: EPA
Donald Trump fór með sigur af hólmi í forkosningum repúblikanaflokksins í Nevadaríki, eins og spáð hafði verið. Marco Rubio varð annar og Ted Cruz þriðji. Sigur Trumps var afgerandi. Samkvæmt útgönguspám AP-fréttaveitunnar og CNN-sjónvarpsstöðvarinnar hlaut hann 42 prósent atkvæða, Rubio 25% og Cruz 21 - 2%. Ben Carson fékk 7% atkvæða í fjórða sæti og John Kasich endaði í fimmta sætinu með aðeins 4% atkvæða.

Þetta er þriðji sigur Trumps í röð, en allar skoðanakannanir sýndu hann með örugga forystu í ríkinu. Samkvæmt könnun sem CBS-sjónvarpsstöðin gerði á kjörstöðum sögðust sex af tíu kjósendum helst vilja frambjóðanda sem ekki tilheyrði stétt atvinnupólitíkusa. Helstu keppinautar Trumps, þeir Cruz og Rubio, eru báðir öldungadeildarþingmenn, Cruz fyrir Texas, en Rubio fyrir Flórída.

Trump hélt níu fjölmenna fundi í aðdraganda forvalsins þar sem hann gerði mjög út á ótta við efnahagskreppu, hryðjuverk og ólöglega innflytjendur. Sá málflutningur virðist hafa fallið í kramið hjá hvítu miðstéttarfólki í Nevada, þar sem mikill fjöldi innflytjenda frá Mið- og Suður-Ameríku er að störfum.

Kjörsókn var mun meiri en skipuleggjendur höfðu reiknað með, sem olli ýmsum vandræðum á nokkrum stöðum. Þannig bárust fréttir af því að einhverjor hefðu getað kosið í tvígang, annarstaðar kláruðust kjörseðlar og blaðamaður Washington Post hefur eftir starfsmanni flokksins að í Clarke-sýslu hafi nánast ríkt upplausn á nokkrum kjörstöðum um hríð vegna mikils álags.

Þá bætti það ekki úr skák að þónokkrir þeirra sjálfboðaliða sem fóru á milli kjörstaða til að sækja kjörkassa skrýddust bolum og höfuðfötum sem merkt voru Donald Trump í bak og fyrir. Varð af þessu nokkuð upphlaup á samfélagsmiðlum, þar sem ásakanir voru uppi um ólögmætan áróður og ógnunartilburði.

Talsmenn Nevada-deildar repúblikana höfnuðu þessu og bentu á að reglur flokksins leyfðu sjálfboðaliðum að auglýsa sína frambjóðendur. Allir hefðu þeir fengið þjálfun og kennslu, og þeir hefðu staðið sig með sóma.