Yfir 90 Boko Haram-liðar felldir

27.02.2016 - 01:11
epa05180417 Nigerian firefighters at the scene of a bomb blast at the premises of Adamawa Police Command's anti-bomb squad and motor traffic department, in Jemita, Yola, North east Nigeria, 25 February 2016. Nigeria's National Emergency
Fjórir létust og fjöldi manns særðist í bænum Jemita í Yola-héraði í Norðaustur-Nígeríu þegar geymsla þar sem lögregla geymdi m.a. vopn og sprengiefni sem náðst hafði í aðgerðum gegn Boko Haram sprakk í loft upp á fimmtudag.  Mynd: EPA
Minnst 92 vígamenn Boko Haram-hryðjuverkasveitanna illræmdu voru felldir í gær, föstudag, í sameiginlegri hernaðaraðgerð Kamerúna og Nígeríuhers, að því er segir í tilkynningu frá stjórnvöldum í Kamerún. Um 850 manns voru frelsaðir úr haldi hryðjuverkasveitanna í sömu aðgerð, sem beindist að þorpinu Kumshe í Norðaustur-Nígeríu, nærri landamærunum að Kamerún.

Tveir kamerúnskir hermenn féllu í árásinni þegar jarðsprengja sprakk, og fimm særðust, að sögn  Issa Tchiroma Bakary, ráðherra samskipta- og fjölmiðlamála í stjórn Kamerúns. Hann greindi ennfemur frá því að töluvert af vopnum, skotfærum og búnaði og hráefni til jarðsprengjugerðar hefði verið gert upptækt.