Yfir 40 féllu í loftárásum Rússa

18.01.2016 - 05:08
epa05033162 A handout frame grab from video footage released by the Russian Defence Ministry on 19 November 2015 shows a Russian Tu-160 long-range strategic bomber landing at an airbase deployed in Russia after its mission in Syria, 19 November 2015.
Rússnesk Tu-160 sprengjuþota.  Mynd: EPA  -  RUSSIAN DEFENCE MINISTRY
Minnst 42 fórust i loftárásum á borgina Raqqa og nærliggjandi svæði á laugardag. Flestir hinna föllnu eru óbreyttir borgarar, þar af átta börn. Raqqa er háborg Íslamska ríkisins, en Sýrlenska mannréttindavaktin og fulltrúi samtaka sjálfstæðra skrásetjara atburða á þessum slóðum sem kalla sig Hljóð og mynd, fullyrða að hryðjuverkasamtökin hafi ekki verið skotmarkið. Sprengjum hafi fyrst og fremst rignt yfir íbúðahverfi, verslunargötur og almenningsrými, og tveir spítalar hafi skemmst í árásunum.

Vígasveitir íslamska ríkisins hafa engar bækistöðvar á þessum stöðum, segir Ghareb al-Omawi hjá Hljóði og mynd. Hann og heimildarmenn Sýrlensku mannréttindavaktarinnar eru á einu máli um að rússneski flugherinn hafi verið að verki.

Árásir Rússa á Raqqa voru gerðar daginn eftir að Íslamska ríkið réðist inn í borgina Deir ez-Zor, þar sem vígamenn þess felldu ekki færri en 50 stjórnarhermenn og myrtu yfir 80 óbreytta borgara, auk þess sem hermt er að þeir hafi tekið allt að 400 manns í gíslingu.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV