Yfir 100 í einangrun vegna hættu á ebólusmiti

17.01.2016 - 05:17
epa05043361 A Liberian man reads an ebola preventive message on a bulletin at a hospital in Monrovia, Liberia, 26 November 2015. Three new cases of Ebola were confirmed in Liberia last week less than three months after the country was declared free of the
Leiðbeiningar um handþvott á sjúkrastöð í Líberíu, sem var lýst laus við Ebólufaraldurinn á fimmtudag. Um leið var faraldurinn sem geisað hefur þar og í Gíneu og Sierra Leone, sagður að baki.  Mynd: EPA
Stjórnvöld í Vestur-Afríkuríkinu Sierra Leone gera nú hvað þau geta til að slá á ótta almennings vegna ebólutilfellis, sem upp kom í landinu aðeins nokkrum klukkustundum eftir að Alþjóða heilbrigðismálastofnunin lýsti því yfir að ebólufaraldurinn á þessum slóðum væri afstaðinn. Tilkynnt var að búið sé að setja ríflega 100 manns í sóttkví, eftir að ebóla var staðfest sem dánarorsök ungrar konu sem lést í Tonkolili-sýslu í Norðurhéraði landsins á fimmtudag.

Helbrigðisyfirvöld í Freetown greindu frá því að búið væri að einangra 109 manneskjur sem vitað er til að hafi verið samvistum við ungu konuna skömmu fyrir dauða hennar. 28 þeirra eru taldir í hæsta áhættuflokki. Þá á enn eftir að hafa uppi á þremur sem unga konan umgekkst síðustu dagana fyrir andlátið. Þann dag var Líbería lýst laus úr klóm ebólunnar, síðast þeirra þriggja landa sem þessi skæða drepsótt herjaði á.

Ishmael Tarawally, sem stýrir almannavörnum í Sierra Leone, greindi frá þessu á fréttamannafundi. Hann sagði að vissulega væri ástæða til að hafa áhyggjur af þessu fyrsta staðfesta ebólutilfelli í landinu frá því í nóvember á síðasta ári, en hvatti landa sína jafnframt til að sýna stillingu. Það væri mikilvægara nú en nokkru sinni fyrr að allir landsmenn legðust á eitt til að koma í veg fyrir að drepsóttin kæmist aftur á kreik. Verið sé að fara nákvæmlega yfir hvert hin látna fór og hverja hún hitti og grípa til viðeigandi aðgerða á hverjum stað.

Landlæknir Sierra Leone, Brima Kargbo, segir að þegar unga konan leitaði læknishjálpar á sjúkrahúsinu í Magburaka, þar sem hún lést skömmu síðar, hafi hún ekki sýnt nein þau sjúkdómseinkenni sem hingað til hafi verið tengd ebólu. Hún hafi ekki verið með hita og augu hennar ekki verið blóðhlaupin; svimi hefði verið það eina sem hún kvartaði undan og sýndi merki um. Sagði hann að nú yrði að endurskoða allt greiningarferli vegna ebólu og að sú vinna væri hafin.

Sierra Leone er eitt þeirra þriggja Vestur-Afríkuríkja þar sem ebólufaraldurinn hefur geisað síðustu tvö árin og orðið yfir 11.000 manns að aldurtila. Í nóvember síðastliðnum var það fyrst þessara þriggja landa til að vera lýst ebólulaust, Gínea fékk græna ljósið í desember og Líbería á fimmtudaginn var, sem fyrr segir. Um leið og Alþjóða heilbrigðisstofnunin lýsti svæðið frítt við þennan banvæna faraldur varaði hún við því að einstök tilfelli gætu átt eftir að skjóta upp kollinum engu að síður.