Yaya Touré er sorrí, svekktur, sár

08.01.2016 - 17:23
Mynd með færslu
 Mynd: www.flickr.com
Yaya Touré tekur því hreint ekki vel að hafa ekki verið kjörinn knattspyrnumaður ársins í Afríku. Hann segir niðurstöðuna hneisu fyrir Afríku og ósæmandi. Hann segir aumkunarvert að ekki sé horft til árangurs í Afríku, heldur árangurs í útlöndum.
Pierre-Emerick Aubameyang, framherji Borussia Dortmund og gabonska landsliðsins, var í gær útnefndur knattspyrnumaður ársins í Afríku. Aubameyang er fyrsti Gaboninn sem vinnur þessi verðlaun.
Hann hafði betur í kjörinu gegn Fílabeinsstrendingnum Yaya Touré hjá Manchester City sem hafði hlotið sæmdarheitið síðustu fjögur ár í röð. Ganverjinn Andre Ayew, liðsfélagi Gylfa Sigurðssonar hjá Swansea, varð þriðji í kjörinu. Aubameyang fékk 143 atkvæði, Yaya Touré 136 og Andre Ayew 112 atkvæði.
 

Aubameyang sem er 26 ára hefur farið á kostum með Dortmund á yfirstandandi keppnistímabili og er markahæsti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar með 18 mörk í 17 leikjum. Pólverjinn Robert Lewandowski er næst markahæstur með 15 mörk.

 Í Guardian segir að Yaya Touré hafi tekið þessu illa. Í útvarpsviðtali hjá RFI í Frakklandi hafi hann sagt að Aubameyang væri framúrskarandi knattspyrnumaður en litið væri fram hjá þeirri staðreynd að Touré hefði leitt Fílabeinsströndina til sigurs í Afríkukeppninni 2015. 

„Ég er mjög, mjög vonsvikinn. Það er sorglegt að sjá Afríku bregðast við með þessum hætti, að árangur í Afríku sé ekki mikilvægur. Þetta er hneisa fyrir Afríku og ósæmilegt. Við sýnum ekki sjálf að Afríka sé mikilvæg í okkar augum. Við horfum meira til árangurs í öðrum löndum, en árangurs í Afríku. Það er aumkunarvert.“

Mynd með færslu
Pálmi Jónasson
Fréttastofa RÚV