WSJ fjallar um ferðaþjónustu á Íslandi

20.08.2017 - 23:12
Mynd með færslu
 Mynd: Helgi Helgason
Bandaríska dagblaðið Wall Street Journal fjallar um ferðaþjónustuna á Íslandi á vef sínum í dag. Farið er yfir hraðan vöxt ferðaþjónustunnar og áhrif hennar á fasteignamarkað og efnahag Íslands. 

Farið er hratt yfir söguna um hvernig ferðaþjónustan varð stærsta atvinnugrein Íslands á örfáum árum. Blaðið segir stjórnvöld ekki hafa verið undirbúin fyrir svo hraðan vöxt. Það hafi bitnað á uppbyggingu innviða og segir blaðið að Íslendingar kvarti yfir húsnæðisskorti, háu leiguverði og rusli í vegaköntum. Blaðið hefur eftir Sigrúnu Brynju Einarsdóttur, skrifstofustjórna á skrifstofu viðskipta, nýsköpunar og ferðaþjónustu í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, að unnið hafi verið hart að því að fjölga ferðamönnum á Íslandi, en vöxturinn hafi verið hraðari en nokkur gat séð fyrir.

Ferðamönnum hefur fjölgað hratt eftir vel heppnaða auglýsingaherferð eftir eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010. Þó ferðaþjónustan hafi hjálpað verulega til við að rétta af efnahaginn eftir bankahrunið árið 2008, segir Wall Street Journal að Íslendingar séu farnir að kvarta undan fjölda ferðamanna. Krökkt sé nú af fólki á svæðum sem áður voru óspillt, vegir séu þéttsetnir bílaleigubílum og gistimöguleikar á borð við Airbnb hafi hækkað leiguverð á langtímaleiguhúsnæði. Fyrr á þessu ári samþykktu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og ríkið um að koma íbúðum úr skammtímaleigu inn á langtímaleigumarkað.

Mynd með færslu
 Mynd: Tom Slee  -  RÚV
Airbnb íbúðir á höfuðborgarsvæðinu í fyrra.

Blaðið bendir á að blikur séu á lofti í ferðaþjónustunni. Hagvöxturinn hafi orðið það hraður að krónan hafi styrkst gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Haft er eftir Má Guðmundssyni, Seðlabankastjóra, að hætta sé á ofhitnun hagkerfis í svo örum vexti, en segir ástandið þó fjarri því sem það var fyrir árið 2008. Þá hafi hagkerfið verið drifið áfram af lánum. WSJ bendir á að hægst hafi á fjölgun ferðamanna að undanförnu með styrkingu krónunnar. Vörur og þjónusta verða dýrari fyrir vikið og hefur blaðið eftir hagfræðingum að það gæti komið í veg fyrir frekari fjölgun á næstu árum. Haft er eftir bandarískum ferðamanni, Will Weiner, að honum hafi þótt það athyglisvert að greiða fimm bandaríkjadali, jafnvirði nærri 530 króna, fyrir uppáhellt kaffi.