Wozniacki úr leik í 1. umferð í Ástralíu

18.01.2016 - 08:41
epa04967714 Angelique Kerber of Germany in action against Caroline Wozniacki of Denmark during their third round match in the China Open tennis tournament at the National Tennis Center in Beijing, China, 07 October 2015.  EPA/ROLEX DELA PENA
Caroline Wozniacki er úr leik á Opna ástralska meistaramótinu í tennis.  Mynd: EPA
Danska tenniskonan Caroline Wozniacki féll óvænt úr leik í morgun strax í 1. umferð Opna ástralska meistaramótsins í tennis. Opna ástralska mótið er fyrsta risamót ársins í tennis.

Wozniacki sem  var efst á heimslistanum í tennis um tíma 2010 og 2011 tapaði fyrir Yuliu Putnitsevu frá Kasakstan í 1. umferð í þremur settum. Wozniacki vann fyrsta settið 6-1 en tapaði öðru setti eftir upphækkun 7-6. Putnitseva hafði svo betur, 6-4 í þriðja setti og vann þar með leikinn 2-1. Viðureignin stóð yfir í þrjá klukkutíma og 12 mínútur.

Williams og Djokovic áfram

Serena Williams sem á titil að verja á Opna ástralska mótinu fékk prýðilega mótspyrnu frá Camilu Giorgi frá Ítalíu sem mætti henni í 1. umferð í dag. Williams hafði þó betur í tveimur settum, 6-4 og 7-5.

Meistari síðasta árs í einliðaleik karla, Serbinn Novak Djokovic er líka kominn áfram í 2. umferð eftir sigur á Chung Hyeon frá Suður-Kóreu. Djokovic hafði betur í þremur settum, 6-3, 6-2 og 6-4. 

Mynd með færslu
Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson
íþróttafréttamaður