Wenger ætlar ekki að hætta að þjálfa

17.02.2017 - 18:15
epa05196195 Arsenal manager Arsene Wenger during his teams match against Tottenham during an English Premier League soccer match at White Heart Lane in London, Britain, 05 March 2016.  EPA/ANDY RAIN   EDITORIAL USE ONLY. No use with unauthorized audio,
Það gengur ekkert hjá Arsene Wenger um þessar mundir.  Mynd: EPA
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, segir að hann muni halda áfram að þjálfa á næstu leiktíð hvort sem það verði hjá Arsenal eða öðru liði. Wenger hefur verið gagnrýndur harðlega af stuðningsmönnum Arsenal eftir að liðið steinlá fyrir Bayern Munchen í Meistaradeildinni á miðvikudag, 5-1.

Samningur Wenger við Arsenal rennur út í sumar og ætlar Frakkinn að ákveða framtíð sína í mars eða apríl. „Sama hvað gerist þá mun ég þjálfa áfram. Hvort sem það er hér eða annars staðar þá mun ég þjálfa,“ sagði Wenger í dag.

„Ég er vanur gagnrýni. Ég er í opinberu starfi og ég verð að sætta mig við gagnrýni. Ég mun hins vegar alltaf fylgja mínum grunngildum,“ bætti Wenger við.

Arsenal er 10 stigum á eftir Chelsea í ensku úrvalsdeildinni en mætir Sutton United í enska bikarnum um helgina. Það virðist vera eini raunhæfi möguleiki Arsenal á titili í vetur nema að liðið fari á mikið skrið í deildinni. Wenger hefur stýrt Arsenal frá árinu 1996 og vann liðið síðast ensku deildina árið 2004. Töluverð óánægja er með störf Wenger hjá hluta stuðningsmanna Arsenal sem hafa kallað eftir því að Frakkinn láti af störfum í sumar.

Mynd með færslu
Jón Júlíus Karlsson
íþróttafréttamaður