Walesa sagður hafa njósnað fyrir kommúnista

18.02.2016 - 10:16
Former Polish President and founder of Solidarity, the Soviet block's first independent rade union, Lech Walesa, addresses autoworkers at Chrysler's North Jefferson Assembly plant in Detroit, Thursday, April 26, 2012. Walesa's visit comes a
 Mynd: AP  -  AP Photo/Carlos Osorio
Gömul leyniskjöl frá leyniþjónustu Póllands virðast sýna að Lech Walesa, frelsishetja landsins, hafi verið njósnari fyrir kommúnistastjórnina á sínum tíma og gegnt því hlutverki lengur en áður var haldið fram. Orðrómur hefur lengi verið á kreiki um að Walesa hafi njósnað fyrir kommúnista undir dulnefninu Bolek og rannsakendur eru nú sagðir hafa komist yfir skjöl sem renni sterkum stoðum undir þá kenningum.

Skjölin fundust á heimili ekkju fyrrverandi hershöfðingja sem lést í fyrra en hann gegndi embætti innanríkisráðherra í kommúnistastjórninni og bar ábyrgð á því að ofsækja fylgjendur samstöðuhreyfingarinnar sem Walesa fór fyrir. Pólsk stofnun, sem rannsakar glæpi á tímum kommúnistastjórnarinnar, segir að enn sé verið að fara yfir skjölin en þau virðist sýna að Walesa og njósnarinn Bolek séu sami maðurinn.

Sjálfur neitar hann þessum ásökunum en aðstoðarforsætisráðherra Póllands segir að fortíð Walesa sé nú orðin ljós. Taka ber fram að núverandi ríkisstjórn Póllands hefur átt í miklum deilum við Walesa, svo ekki sé meira sagt.
 

 

Gunnar Hrafn Jónsson
Fréttastofa RÚV