VR: Krafa um óháða stjórn lífeyrissjóðs

14.01.2016 - 01:43
Hús verslunarinnar
Lífeyrissjóður verslunarmanna er til húsa í Húsi verslunarinnar í Kringlunni  Mynd: RÚV
Stjórn VR lýsir því yfir að fulltrúar félagsins sem tilnefndir verða í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna eigi ekki sæti í stjórnum fyrirtækja eða félaga sem sjóðurinn fjárfestir í. Um leið gerir stjórn VR þá kröfu til samtaka atvinnurekenda að þau geri slíkt hið sama, er þau tilnefna sína fulltrúa í stjórn sjóðsins, trúverðugleiki og traust sjóðsins sé í húfi.

Þetta kemur fram í ályktun sem stjórn VR sendi frá sér að loknum stjórnarfundi í gærkvöldi. VR og Samtök atvinnulífsins þurfa hvort um sig að tilnefna fjóra aðalmenn og fjóra varamenn í stjórn lífeyrissjóðsins fyrir 1. febrúar næstkomandi.

Í ályktun stjórnarinnar segir að henni beri að standa vörð um lífeyrissjóðinn, trúverðugleika hans og traust. Til að það sé hægt verði að tryggja „að þeir sem skipa stjórn sjóðsins gæti fyrst og fremst hagsmuna sjóðsins sjálfs og sjóðfélaga. Það er að mati stjórnar VR óásættanlegt að stjórnarmenn í Lífeyrissjóði verzlunarmanna sitji í stjórnum eða eigi hlut í fyrirtækjum sem sjóðurinn fjárfestir í.“

Ályktun stjórnar VR má lesa í heild sinni á heimasíðu félagsins.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV