Vopnahléið í Sýrlandi heldur enn

27.02.2016 - 12:29
epa05182949 Staffan de Mistura, UN Special Envoy of the Secretary-General for Syria, speaks during a press conference about the beginning of a cessation of hostilities in Syria and the next talks in Geneva between the government and the opposition, at the
 Mynd: EPA  -  KEYSTONE
Vopnahléið sem tók gildi í Sýrlandi í gærkvöldi heldur enn. Rússar tilkynntu í morgun að herflugvélar þeirra færu í engar ferðir yfir Sýrland í dag til þess að styðja við vopnahléið. Erindreki Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi segir að vafalítið verði gerðar markvissar tilraunir til að grafa undan friðarferlinu sem á að halda áfram með viðræðum eftir rúma viku.

 

Vopnahléið er tímabundið og takmarakað og tók gildi í Sýrlandi á miðnætti að staðartíma - klukkan tíu í gærkvöldi að íslenskum tíma.

Staffan de Mistura, erindreki Sameinuðu þjóðanna í málefnum Sýrlands, segir að vopnahléið veitti von um að hægt yrði að semja um frið þegar fram líði stundir. Áframhaldandi friðarviðræður séu fyrirhugaðar í Genf í Sviss mánudaginn 7. mars.

„Það er mögulegt að ljón verði á vegi okkar,“ sagði De Mistura. „Mögulega þarf að endurskilgreina samkomulagið en um leið þarf að tryggja að spenna og atvik magnist ekki upp.“

De Mistura segir að alltaf sé hætta á að reynt verði að grafa undan vonahléinu sem Rússar og Bandaríkjamenn áttu frumkvæði að.

Samkvæmt upplýsingum frá Sýrlensku mannréttindavaktinni var friðsamlegt í Damaskus og nágrenni í morgun í fyrsta skipti í mörg ár. Í Latakíu, þar sem herstöð rússneska flughersins er, hafa engar orustuþotur tekið á loft í morgun. 

Rússneski herinn segir að engum herflugvélum verði flogið yfir Sýrland í dag. Þannig verði stutt frekar við vopnahléið og komið í veg fyrir mistök með sprengjur eins og það er orðað í yfirlýsingu.

Rétt áður en vopnahléið hófst gerðu sýrlenskar og rússneskar orrustuþotur loftárásir á uppreinsarmenn á nokkrum svæðum í landinu.

Þó von sé um að vopnahléið haldi þykir margt benda til að bardögum linni ekki til langframa. Sumar stærstu vígasveitir landsins telja sig ekki bundnar af vopnahléinu. Þá nær það ekki til hryðjuverkasamtakanna Íslamska ríkisins og Al-Nusra, Sýrlandsarms Al-Kaída. Í yfirlýsingu frá Al-Nusra í gær eru liðsmenn samtakanna hvattr til þess að herða árásir sínar á stjórnarher Assads forseta og bandamenn hans. 

250 þúsund manns hafa fallið frá því stríðið hófst fyrir fimm árum. 11 milljónir manna hafa hrakist frá heimilum sínum.