Vopnaðir drónar fljúga frá Sikiley til Líbíu

23.02.2016 - 02:10
epa04625812 (FILE) An undated handout picture by the US Air Force shows a MQ-1 Predator unmanned aircraft in flight at an undiclosed location. According to a statement released by the US State Department on 17 February 2015, the US will begin selling
 Mynd: EPA  -  EPA FILE / US AIR FORCE FILE
Bandarískir drónar munu fljúga frá Sikiley til árása gegn vígasveitunum sem kenna sig við íslamskt ríki í Líbíu. Samkomulag þess efnis náðist í janúar eftir árslangar viðræður á milli Bandaríkjanna og Ítala.

Ítalska varnarmálaráðuneytið staðfesti þetta við blaðamenn Wall Street Journal í kvöld. Drónarnir munu fljúga frá bandarískri herstöð á Sikiley áleiðis til Líbíu og annarra ríkja í norðurhluta Afríku þar sem ógn stafar af vígasveitunum.
Bandaríkin fá þó ekki alveg frítt spil með drónana. Þeir verða að fá leyfi ítalskra stjórnvalda í hvert sinn sem vopnaður dróni fer á loft, og aðeins má gera árásir ef þær eru til að verja sérsveitir sem eru að berjast gegn IS. 

Í samningaferlinu hafa Ítalir ítrekað komið í veg fyrir að drónarnir verði notaðir í sóknaraðgerðir á borð við þá sem þeir gerðu á æfingabúðir IS í Líbíu í síðustu viku. Tveir serbneskir erindrekar voru í gíslingu í búðunum og féllu í árásinni. Ítalir óttast að óbreyttir borgarar gætu fallið í slíkum aðgerðum og þeim verði kennt um. Þá vilja þeir að drónaárásir beinist aðeins gegn erlendum sveitum í Líbíu til þess að koma í veg fyrir frekari pólitíska spennu í landinu. 

Drónar hafa flogið frá herstöðinni á Sikiley síðan 2011. Þeir voru aðeins notaðir í eftirlitsflug þar til í janúar þegar leyfi fékkst til að vígbúa þær.
Að sögn WSJ stefna Bandaríkin á að koma upp flugstöð fyrir dróna í einhverju ríkja Norður-Afríku til þess að auka viðbragð og hraða varnaraðgerða. Lítið gengur að ná samkomulagi við stjórnvöld.

Óttast er að allt að 6.000 liðsmenn IS séu í Líbíu. Bandarísk sérsveit er staðsett í landinu til þess að aðstoða stjórnarherinn gegn hryðjuverkasveitinni.