Vonast til að mjólkurfrumvarp lækki verð

19.03.2017 - 18:46
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vonast til að frumvarpsdrög um breytingar í mjólkuriðnaði stuðli að fjölbreyttara vöruúrvali og lægra verði. Samkeppni sé af hinu góða þar eins og annars staðar. Útilokað sé að staðhæfa að verð muni hækka ef drögin verða að lögum, eins og kúabændur hafa haldið fram.

Frumvarpsdrög um breytingu á búvörulögum, sem fela í sér endurskoðun á samkeppnisstöðu mjólkuriðnaðarins, hafa verið til umsagnar hjá atvinnuvegaráðuneytinu undanfarið. Samkvæmt þeim geta allir í mjólkuriðnaði keyt mjólk með sama tilkostnaði, framleiðsluhluti markaðsráðandi afurðastöðvar verði aðskilinn frá annarri starfsemi og Samkeppniseftirlitið hafi eftirlit með markaðsráðandi afurðastöð.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir þetta gert eftir ábendingar frá Samkeppniseftirlitinu, en fleira komi til. „Mjólkuriðnaðurinn stendur mjög sterkt þannig að ég held og tel þetta skref vera skynsamt, hóflegt skref í samræmi við ábendingar frá Samkeppniseftirlitinu því ég tel að samkeppni geti orðið mjög af hinu góða í þessu fagi sem öðru.“

Kúabændur hafa gagnrýnt drögin, segja þau illa ígrunduð og fela í sér verðhækkun við fyrstu sýn. „Það er algjörlega útilokað að segja að svo verði. Samkeppnin hefur skilað sér í hærra en líka lægra verði og það getur vel verið að einstakar vörur hækkið meðal aðrar lækki.“

Þorgerður Katrín segir frumvarpinu ekki beint gegn MS eða öðrum. Þetta sé til að styrkja stöðu neytenda og ýta undir fjölbreytta framleiðslu. „Ég vonast til þess, eins og iðulega að samkeppni leiði til að hún stuðli að meiri fjölbreytni, meiri nýliðun í greininni, meiri nýsköpun og vonandi lægra vöruverði.“

 

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV