„Vonandi sátt um þetta"

Mynd með færslu
 Mynd: Landssamband hestamanna  -  LH
„Ég vona að sé sátt í hreyfingunni, að eins miklu leyti og hún getur orðið. Það hjálpar ábyggilega til að vita þetta svona langt fram í tímann“, segir Lárus Ástmar Hannesson formaður Landssambands hestamanna. Staðarval fyrir Landsmót hefur löngum verið hitamál í röðum hestamanna. Stjórn LH hefur nú ákveðið hvar fjögur næstu landsmót hestamanna skulu haldin.

Ný stjórn Landssambands hestamanna var kjörin í nóvember 2014. Fyrri stjórn sagði þá öll af sér, eftir að Landsþing hafði ómerkt ákvörðun hennar um að flytja mótið 2016 úr Skagafirði í Garðabæ. Nýja stjórnin ákvað í framhaldi að mótið yrði á Hólum í Hjaltadal. Síðan hefur hún fundið næstu þremur mótum stað, til ársins 2022. Í sumar verður Landsmót á Hólum í Hjaltadal, árið 2018 í Víðidal í Reykjavík, árið 2020 á Gaddstaðaflötum við Hellu og árið 2022 á Kjóavöllum, svæði hestamanna í Garðabæ og Kópavogi.

Mynstur í staðarvali?

Mótin verða haldin til skiptis á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi næstu fjögur skipti. Lárus Ástmar segist vona að hestamenn ræði um mynstur á mótahaldinu á landsþingi í haust. „Það væri ekkert verra að stjórn hefði einhvern svona ramma til að vinna eftir og hreyfingin öll. Þannig að vonandi verður einhver svona rammi til í haust, á þinginu“. Hann segir að stjórnin hafi nú tekið þá ákvörðun sem hún taldi farsælasta fyrir greinina. Auk Hellu og Kjóavalla var sótt um að halda mótin á Hólum, Akureyri og í Reykjavík. „Við fengum góðar umsóknir og það er ansi mikill metnaður í félögunum“.  

Mikilvægt að skipuleggja lengra

Landsmót verður haldið í fyrsta sinn á Kjóavöllum árið 2022. Lárus Ástmar segir að nýir staðir séu vissulega mögulegir í framtíðinni. „Ef félög hafa búa að þannig aðstöðu að þau geti haldið landsmót er ekkert sem kemur í veg fyrir það. Við ákveðum þetta ekki aftur fyrr en 2019 og við vitum ekki hver staðan verður þá. Það er mikilvægt að ákveða þetta langt fram í tímann. Félögin þurfa að undirbúa og markaðssetja mótin. Með aukinni ferðamennsku þurfa gestir líka lengri tíma til að bóka sína gistingu“, segir formaðurinn.

Stemmning fyrir Hólum

Lárus Ástmar segir að mikil stemmning sé fyrir landsmóti á Hólum í sumar, 3500 aðgöngumiðar séu þegar seldir, sem sé meiri forsala en á undanförnum mótum. „Það gengur vel að undirbúa mótið á Hólum. Það eru að tínast inn lykilmenn sem starfa með okkur. Skagfirðingar vilja gera allt sem þeir geta til að taka á móti hestafólki og eru mjög áhugasamir.  Ég er mjög spenntur fyrir mótinu í sumar“. 

 

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV