Vona að málið skýrist frekar um miðja viku

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhann Bjarni Kolbeinsson  -  RÚV
Um miðja viku er von er á niðurstöðum blóðrannsókna úr manndrápsmálinu í Mosfellsdal. Lögregla vonar að þau gögn geti varpað frekara ljósi á það hvert var banamein Arnars Jónssonar Aspar, sem lést eftir átök við heimili sitt að Æsustöðum miðvikudagskvöldið 7. júní. Þetta segir Ævar Pálmi Pálmason lögreglufulltrúi.

Tveir sitja enn í gæsluvarðhaldi vegna málsins en fjórum var sleppt úr haldi á fimmtudaginn var. Þeir sem enn sitja í haldi hafa ekki játað sök á manndrápinu en hafa þó tjáð sig við yfirheyrslur. „Þeir hafa tjáð sig og eftir atvikum svarað spurningum lögreglu,“ segir Ævar Pálmi, sem vill þó ekkert segja um hvort þeir hafi viljað upplýsa um tilganginn með ferðinni að Æsustöðum.