Von um bætt vinnubrögð á Alþingi

20.01.2016 - 09:18
Afgreiðsla húsnæðisfrumvarpa Eyglóar Harðardóttur, félagsmálaráðherra, á seinni hluti þingsins gæti orðið prófsteinn á það hvort samstaða geti myndast um úrbætur í húsnæðismálum, sem margir bíða eftir. Alþingismennirnir Elsa Lára Arnardóttir, Framsóknarflokki, og Óttarr Proppé, Bjartri framtíð, voru gestir Morgunvaktarinnar á Rás 1 og ræddu þingstörfin framundan. Bæði lögðu þau ríka áherslu á bætt vinnubrögð á Alþingi og mikilvægi þess að ná samstöðu um brýn úrbótamál.

Elsa Lára Arnardóttir á sæti í velferðarnefnd og sagði frá þeirri vinnu sem lögð hefur verið í húsnæðismálafrumvörp félagsmálaráðherra, sem mjög hefur verið beðið eftir. Hún sagði að áhersla væri lögð á samráð við ýmsa hagsmunaaðila um efni þeirra. Óttarr Proppé sagði að það ætti eftir að koma í ljós hvaða niðurstaða fengist af pólitísku samráði um húsnæðismálin. Bæði ítrekuðu mikilvægi úrbóta á sviði húsnæðismála, sérstaklega í þágu ungs fólks. Óttarr nefndi líka mikilvægi þess að skapa samstöðu um stjórnarskrárbreytingar og afgreiðslu nýrrar útlendingalöggjafar. 

Mynd með færslu
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi