Volkswagen gefur í vestanhafs

11.01.2016 - 05:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Matthias Müller, stjórnarformaður Volkswagen, baðst afsökunar á svindli fyrirtækisins í útblástursmælingum í fyrstu heimsókn sinni til Bandaríkjanna eftir að upp komst um málið í september.

Hann segir framleiðandann vita að hann hafi valdið viðskiptavinum fyrirtækisins, og bandarískum almenningi, vonbrigðum. Müller segir fyrirtækið staðráðið í því að rétta sinn hlut.

Müller tilkynnti á bílasýningunni í Detroit að Volkswagen ætli að eyða 900 milljónum bandaríkjadala í framleiðslu nýs jepplings fyrir Bandaríkjamarkað. Tvö þúsund ný störf verða til við fjárfestinguna.
Bílaframleiðandinn viðurkenndi í fyrra að um 11 milljónir dísilknúinna bíla hafi innihaldið búnað sem gaf rangar upplýsingar um útblástur við prufur. Innkalla þurfti milljónir bíla víða um heim.