Vissu ekki af hættunni þrátt fyrir banaslys

11.02.2016 - 19:14
Margir ferðamenn í Reynisfjöru í dag vissu ekki um hætturnar í fjörunni, þar sem maður lést í gær. Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra ferðamála, segir að tillögur um hvernig eigi að efla öryggismál ferðamanna verði tilbúnar á næstu vikum.

Fjórir erlendir ferðamenn hafa látist af slysförum hér á landi á rúmum mánuði, sá síðasti í gær þegar kínverskur ferðamaður lést eftir að hafa fallið í sjóinn við Reynisfjöru í Mýrdal. Víðir Reynisson lögreglufulltrúi á Suðurlandi sagði í fréttum í gær að mjög mikilvægt væri að hraða vinnu við að auka öryggi ferðamanna. Þá segir lögreglustjórinn á Suðurlandi að fjölga þurfi í lögreglunni á Suðurlandi um tíu manns hið minnsta og veita aukalega 200 milljónum króna til þess að auka öryggi ferðamanna. Í sjónvarpsfréttinni sem sjá má hér að ofan er rætt við ráðherrann, yfirlögregluþjón og ferðamenn sem lögðu leið sína í Reynisfjöru í dag.

„Öryggismál ferðamanna, hvort sem þeir eru erlendir eða innlendir, hafa verið mikið til skoðunar að undanförnu. Núna eftir stofnun Stjórnstöðvar ferðamála hefur þetta verið eitt af þeim forgangsmálum sem við höfum verið að vinna að. Og við munum koma með tillögur í lok mánaðarins óháð þessum hörmulegu slysum sem þú ert að nefna,“ segir Ragnheiður Elín. Ótímabært sé að segja hverjar þær tillögur eru. Hún bendir þó á að unnið hafi verið í forvarnarmálum og auknum upplýsingum verið komið til ferðamanna. Þá hafi auknu fé verið veitt í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða.

„Það sem hefur verið að gerast er að menn hafa verið að vinna þetta hver í sínu horni. Nú erum við komin með þetta tæki sem hefur skort sem er samhæfingartækið sem ég bind miklar vonir við í Stjórnstöð ferðamála, að koma þessum málum í tryggari framkvæmd.“

Fleiri en stjórnvöld þurfi hins vegar að koma að málinu.

„Stjórnvöld geta ekki gert þetta ein. Ef við horfum til dæmis á þetta slys í Reynisfjöru þá er það á landareign sem er í einkaeigu. Og við þurfum að taka höndum saman með rekstraraðilum þar með að ráða bót á þessu. Það er eitt. Svo er annað eins og innviðauppbygging og samgönguframkvæmdir sem kalla á aukna fjármuni og þá kemur fjárveitingarvaldið til skjalanna og það er í höndum Alþingis. Sumt er hægt að gera strax og þarf ekki að kosta mikla fjármuni en ef menn eru að tala um mikinn aukinn mannafla í löggæslu eða miklar innviðaframkvæmdir eða vegaframkvæmdir segir það sig sjálft að það mun kosta fjármuni,“ segir Ragnheiður Elín.