Vísar ásökunum FÍB á bug

06.03.2016 - 21:00
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Unnur Gunnarsdóttir forstjóri Fjármálaeftirlitsins segir það fráleitt að eftirlitið sinni ekki eftirlits- og aðhaldshlutverki sínu. Þeir sem slíku haldi fram tali af vanþekkingu.

Félag íslenskra bifreiðaeigenda sakar Fjármálaeftirlitið um vanrækslu vegna iðgjaldshækkana og arðgreiðslna tryggingafélaganna og skorar á fjármálaráðherra að grípa í taumana. Unnur segir það rangt að tryggingafélögin hafi tæmt bótasjóði sína í arðgreiðslur eins og FÍB haldi fram. 

„Það er ekki um það að ræða. Við vitum nákvæmlega hvernig reikningarnir standa hjá félögunum,“ segir Unnur.
 
FÍB fullyrðir líka að Fjármálaeftirlitið sinni ekki sínu eftirlits- og aðhaldshlutverki. Hverju svarar þú því? 

„Ég vísa því algerlega á bug og tel að þarna sé talað af vanþekkingu á á hlutverki og starfsemi Fjármálaeftirlitsins.“ 

Hvaða áhrif hefur það á orðspor tryggingafélaganna að tilkynna um iðgjaldshækkun og síðan ekki svo löngu síðar um arðgreiðslur til hluthafa? 

„Ja þessi atburðarás gefur auðvitað tilefni til að velta fyrir sér hvort að þeir sem að taka svona stjórnunarlegar ákvarðanir hafi velt fyrir sér þeirri orðsporsáhættu sem þetta hefur í för með sér gagnvart viðskiptavinum félagsins. Og þessu tengist auðvitað að viðskiptavinir geri sér grein fyrir því hjá vátryggingafélögum yfirleitt að lögum hefur verið breytt þannig að það er mun auðveldara en áður að flytja viðskipti sín á milli félaga, ef mönnum líka ekki viðskiptahættirnir,“ segir Unnur. 

 

Mynd með færslu
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV
Mynd með færslu
Guðmundur Björn Þorbjörnsson
Fréttastofa RÚV