Vísað úr landi fyrir að vinna of mikið

08.01.2016 - 21:24
Miðbær Árósa
 Mynd: Wikimedia Commons
Dönsk yfirvöld hafa vísað erlendum námsmanni úr landi vegna þess að hann vann of mikið. Lögum samkvæmt mega erlendir námsmenn vinna í 15 klukkustundir á viku, með fram námi. Rannsókn á vinnutilhögun mannsins leiddi hins vegar í ljós að sumar vikur hafði hann unnið 16 og hálfa klukkustund í ræstingastarfi sem hann sinnti. Eða einni og hálfri klukkustund meira en leyfilegt er.

Maðurinn, Kamerúninn Marius Youbi, lagði stund á nám í rafmagnsverkfræði í Árósum. Einn af kennurum hans sagði í samtali við danska ríkisútvarpið, DR, að Youbi væri besti nemandinn við deildina. 

Youbi hefur búið í Danmörku í þrjú og hálft ár og hefur lokið fimm önnum af sex í grunnnámi. Ekki er ljóst hvort það nám er nú unnið fyrir gýg. Youbi talar dönsku og á systur í Danmörku, sem hann kvaddi áður en hann fór úr landi í gær. Hann sagðist þó vona að hann gæti snúið aftur til Danmerkur í framtíðinni.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV