Vísað frá á landamærum Danmerkur og Þýskalands

05.01.2016 - 02:25
Mynd með færslu
 Mynd: DR
Tugum farþega sem komið hafa með lestarferjum til Rødby á Lálandi frá Puttgarden í Þýskalandi, hefur verið gert að snúa aftur sömu leið, eftir að Danir tóku upp hert eftirlit við þýsku landamærin, þar á meðal í ferjuhöfninni í Rødby. Fréttamaður Danmarks Radio varð vitni að því snemma kvölds. þegar lögregla vísaði tugum fólks, þar á meðal nokkrum barnafjölskyldum, úr tveimur lestum á brautarstöðinni í dönsku ferjuhöfninni.

Fjölmennt lögreglulið var á brautarstöðinni og krafði alla farþega um skilríki. Öllum sem ekki höfðu gild skilríki eða sögðust ætla að sækja um hæli var gert að yfirgefa lestina og voru færðir í burtu í lögreglufylgd. Þeir sem óskuðu hælis voru síðan sendir með rútum í móttökustöð hælisleitenda, en hinum, sem ekki óskuðu hælis, var snúið aftur til Þýskalands.

Vegabréfaeftirlitið á landamærum Þýskalands og Danmerkur, og Danmerkur og Svíþjóðar, er á skjön við Schengen-sáttmálann, sem Danmörk, Svíþjóð og Þýskaland eiga öll aðild að.