Virðist ekki hafa áhrif á önnur svæði

03.04.2013 - 12:24
Mynd með færslu
Grannt er fylgst með upptaksvæði jarðskjálftanna undan Norðurlandi, þó ekkert bendi til að virknin sé farin að hafa áhrif á önnur sprungusvæði. Engir stórir skjálftar hafa mælst frá því í nótt, en jarðskjálftafræðingur segir það ekki þýða að dregið hafi úr virkninni.

Það er enn talsverð skjálftavirkni undan Norðurlandi þó engir stórir skjálftar hafi mælst frá því í nótt. Skjálfti upp á 4,7 varð rétt fyrir ellefu í gærkvöldi og annar, 4,6 skömmu síðar. Skjálfti upp á fjóra varð svo rétt fyrir þrjú í nótt. Allir skjálftar sem mælst hafa í morgun eru talsvert smærri, þó mælast reglulega skjáftar um og yfir 3 að stærð. Stóri skjálftinn upp á 5,5 sem varð í fyrrinótt er margfalt stærri. Skjálfti af þeirri stærð er til dæmis um tífalt stærri en skjálfti upp á 4,5. Fólk á stóru svæði á Norðurlandi hefur orðið vart við jarðskjálfta í þessari hrinu sem staðið hefur síðan á páskadag. Mest hefur jörð skolfið í Grímsey enda upptökin á tveimur svæðum austur af eynni. Og þar stendur fólki ekki á sama.

„Ég segi nú fyrir mig að ég er nú ekki hrædd, en við vitum aldrei hvað á eftir að kom. Það er bara óhuggulegt hvað þetta er nálægt okkur,“ segir Jórunn Magnúsdóttir í Grímsey.

Sigþrúður Ármannsdóttir hjá Veðurstofunni segir að skjálftavirknin komi í hrinum, og svo róist á milli. Það þýði ekki að neitt sé farið að draga úr virkninni. En hún segir grannt fylgst með því hvort skjálftavirknin hafi hugsanlega hrif á önnur sprungusvæði. „Enn sem komið er þá er þetta allt inn á Skjálfandadjúpi og þessir austari skjálftar þeir ná alvega austur undir Flateyjargrunn. Það er voða erfitt að segja til um framhaldið. Þetta stendur örugglega í einhverja daga, jafnvel í eina eða tvær vikur. Það er bara eiginlega ekki hægt að segja til um það.“