Vinstristefna Bernie Sanders mótar umræðuna

13.01.2016 - 11:04
Óhætt er að segja að gengi óháða öldungardeildarþingmannsins vinstrisinnaða frá Vermont, Bernie Sanders, í kapphlaupinu um að verða frambjóðandi Demókrataflokksins í forsetakoningunum í nóvember hafi vakið mikla athygli. Hann hefur saxað mjög á forskot Hillary Clinton - nú þegar styttist í fyrstu forkosningarnar. Silja Bára Ómarsdóttir, stjórnmálafræðingur, sagði á Morgunvaktinni á Rás 1 að hugmyndir Bernie Sanders móti umræðuna og hafi fært Hillary Clinton til vinstri.

Fram kom hjá Silju Báru Ómarsdóttur að tveir þriðju karla styðji Sanders en aðeins um helmingur kvenna fylgi Hillary Clinton, unga fólkið hallist frekar að Sanders - en Clinton sé miklu sterkari meðal svartra kjósenda. Annars hefur keppni þeirra í milli ekki verið sérlega hörð en tónninn hefur verið að skerpast, frambjóðendurnir eru farnir að skjóta meira hvor á annan. Meðal þess sem Hillary Clinton bendir á er að Bernie Sanders er ekki fylgjandi þeim takmörkum sem Obama hefur kynnt um aðgengi að skotvopnum. Sanders er fyrsti vinstrimaðurinn í nútímasögu Bandaríkjanna sem á raunhæfa möguleika á að verða frambjóðandi demókrata, þó Hillary Clinton sé enn talin mun sigurstranglegri. "Hillary hefur þurft að færa sig til vinstri. Hún er ekkert sérlega vinstrisinnuð", sagði Silja Bára um Sanders-áhrifin. "Hún hefur þurft að færa sig til vinstri til að elta Sanders og fylgið sem hópast hefur til hans". Silja Bára bendir á að Sanders hafi lengi talað um ójöfnuð í Bandaríkjunum, mikið tekjubil, og hann sé með miklu róttækari hugmyndir en Obama um fyrirkomulag sjúkratrygginga. Hann sækir fylgi sitt til tekjulágra og óháðra kjósenda en Hillary Clinton hefur mikla yfirburði meðal þeirra sem búa við betri afkomu. 

Mynd með færslu
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi