Vinnusöm fyllibytta og ljóðrænn dónakall

13.08.2017 - 12:00
Serge Gainsbourg er sennilega áhrifamesti maðurinn í frönsku tónlistarlífi undanfarna öld – þrátt fyrir að 25 ár séu síðan hann lést.

Gainsbourg var andans risi, ráðgáta, ólíkindatól og heill heimur út af fyrir sig. Hann var tónskáld, söngvari, píanóleikari, kvikmyndaleikstjóri, leikari, ljóðskáld, myndlistarmaður, rithöfundur og ein mikilvægasta persónan í frönsku listalífi. Hann gerði tónlist af ýmsum toga; mambó, rokk, jazz, popp, prog-rokk, reggí og rafpopp svo fátt eitt sé nefnt. Hann hafði einstakt lag á því að ögra gildum samfélagsins og móðga smáborgara, var umdeildur, hataður og elskaður. Hann samdi yfir 550 lög og var ákaflega þversagnakennd  persóna: vinnusöm fyllibytta, kúltíveraður dóni, textarnir hans uppfullir af ljóðrænni snilld, dónaskap, útúrsnúningi og orðaleikjum.

Misheppnaður myndlistarmaður 

Serge Gainsbourg er fæddist 2. apríl 1928 í París og var sonur innflytjenda og flóttamanna. Foreldrar hans voru rússneskir gyðingar og þegar seinni heimstyrjöldin skall á hertóku Nasistar Frakkland og um allt land voru gyðingar handteknir og sendir í útrýmingabúðir. Serge eða Lucien eins og var nefndur í æsku, gekk með gula stjörnu í barminum, en svo flúði fjölskyldan París með fölsuð skilríki og faldi sig í nærliggjandi sveitum á meðan þessi ósköp gengu yfir. Lucien lagði stund á nám í píanóleik og myndlist og þrítugur að aldri er hann kennari, tveggja barna faðir og misheppnaður myndlistarmaður sem vinnur fyrir sér með barspilamennsku á kvöldin.

Eitt af fyrstu lögum Gainsbourg.

Smátt og smátt byrjar hann að semja sín eigin lög og það er kabarett-söngstjarnan Michéle Arnaud sem uppgötvar þennan feimna og furðulega píanóleikara og fer að syngja lögin hans, sem voru nokkuð á skjön við það sem almennt var í gangi á þessum tíma. Í einum af hans fyrstu lögum, „Le Poinconneur des Lilas“, er fjallað um starfsmann á lestarstöð sem vinnur við að gata lestamiða en langar mest til þess að setja göt í hausinn á sér og láta grafa sig í gati í jörðinni – því honum leiðist svo mikið.

Sigurlag Eurovision-keppninnar 1965 sem Gainsbourg samdi fyrir Lúxemborg.

Sleikibrjóstsykur

Gainsbourg fór að semja lög af miklum krafti á þessum tíma og samdi framlag Luxemborgar í Eurovision 1965 sem sungið var af unglingastyrninu France Gall, en lagið vann keppnina. Ári síðar semur hann hið fræga sleikipinnalag, „Les sucettes“ , fyrir Gall – sem hún hélt að væri sakleysislegt hjal um stelpu að sjúga sleikipinnann sinn – en það var öðru nær. Gainsbourg náði að blekkja alla um tíma og gera eitt af sínum mörgu prakkarastrikum, en textinn var morandi í kynferðislegri tvíræðni og margir þóttust greina þar sterkar tilvísanir í munnmök. Lagið varð að miklu hneyksli og ferill Gall var varð rústir einar eftir það. En Gainsbourg er á þessum tíma líka að gefa út jazzplötur, spreyta sig karabískri tónlist og vinna með allskonar listamönnum en plötur undir hans eigin nafni seljast lítið.  

Á þessum tíma eru Bítlarnir að tröllríða heiminum og Gainsbourg hangir í sömu kreðsum og Jaques Brel og Julietto Greco. Greco var táknmynd franskrar æsku á þessum tíma, dökkhærð, stuttklippt, mystísk og þau hanga saman eina nóttina, drekka rauðvín og reykja sígarettur og enda á því að semja hina frönsku klassík „La Javanaise“.

Kvennaljóminn með arnarnefið

En svo verður á vegi hans engin önnur en leikkonan Brigitte Bardot sem hann fellur kylliflatur fyrir. Gainsbourg þótt aldrei sérlega fríður, með risastór eyru, mikið arnarnef, en samt sjarmerandi, þögull, dularfullur og mikill kvennaljómi. Þau fella hugi saman og vinna saman að tónlist. Þar bar hæst óð Gainsbourg og Bardot til morðóða parsins Bonnie og Clyde sem hafði verið gert ódauðlegt í samnefndri bíómynd ári fyrr.

Heitasta par Frakklands

Gainsbourg var alveg yfir sig ástfanginn Brigitte Bardot en sá galli var á þeim ráðahag að Bardot var gift. Fyrsta útgáfan af frægasta lagi Gainsbourg, „Je t'aime... moi non plus“ var hljóðrituð með söng og fullnægingarstunum Bardot sem eiginmaður hennar var ekki par hrifinn af svo þeirri útgáfu var stungið ofan í skúffu og leit hún ekki dagsins ljós fyrr en 1986. Eftir að allt sauð uppúr með Bardot kynnist Gainsbourg ungri enskri leikkonu, Jane Birkin, en þau verða ásfangin, giftast, eignast börn, búa saman í mörg ár og eru eitt heitasta par Frakklands. Gainsbourg tekur aftur upp „Je t'aime... moi non plus“ með Jane Birkin og það veldur æsingi um alla Evrópu. Það þótti svo dónalegt að það var víðast hvar bannað, meðal annars í Ríkisútvarpinu, og fordæmt af sjálfu Vatíkaninu. En það varð gríðarlega vinsælt og seldist í bílförmum um víða veröld og Serge Gainsbourg varð loksins heimsfrægur og gat gert hvað sem hann vildi hér eftir.

Mesta meistarverk Gainsbourg og ein flottasta plata franskrar poppsögu er Histoire de Melody Nelson, stórfurðulegt og magnað verk. Þetta er concept plata og segir frá súrrealísku Lólítuævintýri þar sem Gainsbourg les söguna við undirleik rokk- og sinfóníuhljómsveitar. Þetta er plata sem Pink Floyd liðar hlustuðu mikið á þegar hún kom út, Beck reyndi vísvitandi að stæla á Sea Change, og listamenn a borð við Jarvis Cocker, Portishead og Air-dúettinn telja eina bestu plötu allra tíma.

Brennir peninga

Upp úr þessu dettur Gainsbourg meira og meira í hlutverk sífulla dónakallsins sem er stöðugt að ögra og hneyksla. Hann brenndi 500 franka seðil í beinni sjónvarpsútsendingu og frægt var þegar hann sagði – sömuleiðis í beinni sjónvarpsútsendingu – við Whitney Houston að hann vildi sofa hjá henni. Alltaf með rauðvínsglas í hendi og sígarettu í munnvikinu.

Mynd með færslu
 Mynd: Dean Tavoularis  -  Wikimedia Commons
Gainsbourg ásamt leikkonunni Aurore Clément.

Þjóðsöngur í reggíbúning

1975 gaf hann út Nasistasöngleikinn Rock Around the Bunker sem fór fyrir brjóstið á mörgum. Ári síðar gaf hann svo út L´Homme á tée de chou, maðurinn með kálhausinn, eitt af hans betri verkum. 1979 skellti hann sér til Jamaica og gerði tvær prýðisgóðar reggí plötur. Þar hljóðritaði hann franska þjóðsönginn með þeim Robbie Shakespeare, Sly Dunbar, Ritu Marley og fleirum – og þegar þessi útgáfa kom út varð allt gjörsamlega brjálað. Hann fékk morðhótanir og hatursbréf en fólk átti afar erfitt með að fyrirgefa honum þessa meðferð á þjóðsöngnum.

Mikið hneyksli varð þegar Gainsbourg söng „Sítrónusifjaspell“ ásamt dóttur sinni á táningsaldri. Dóttirin var Charlott Gainsbourg sem hefur gert garðinn frægan sem leikkona, meðal annars í myndum Lars Von Trier.

Ferill Serge Gainsbourg er afar sérkennilegur, hann byrjar sem jazzpíanisti, fer svo í frönsk kabarett sönglög, þaðan í Eurovisonpopp, tyggjókúlupopp, prog rokk, pönk, reggí og endar í hálfgerðu raffönki. Hann gerði tvær plötur af hljóðgervlapoppi í New York 1984 og 87. Þarna var hann í raun á lokametrunum við það að drekka sig endanlega í hel en hann lést annan mars 1991 og var þá hylltur af sjálfum forseta Frakklands, Francois Mitterand, sem eitt mikilvægasta söngskáld Frakka fyrr og síðar.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Leiði Gainsbourg í Montparnasse kirkjugarðinum í París.

Umslag hinnar frábæru Histoire de Melody Nelson skartar Jane Birkin, þáverandi eiginkonu Gainsbourg. Sem er einmitt ensk og rauðhærð eins og hin unga ástkona sögumanns plötunnar.

Freyr Eyjólfsson fjallaði um tónlistarmanninn Serge Gainsbourg í Rokklandi. 

Freyr Eyjólfsson
Mynd með færslu
Davíð Roach Gunnarsson
vefritstjórn
Rokkland
Þessi þáttur er í hlaðvarpi