Vinnubúðir í Fannardal stórskemmdar - myndir

25.02.2016 - 15:30
Mynd með færslu
 Mynd: Slökkvilið Fjarðabyggðar  -  Tjón á vinnubúðum í Fannard
Mynd með færslu
 Mynd: Slökkvilið Fjarðabyggðar  -  Tjón á vinnubúðum í Fannard
Mynd með færslu
 Mynd: Slökkvilið Fjarðabyggðar  -  Tjón á vinnubúðum í Fannard
Engan sakaði þegar eldur kviknaði í mannlausum vinnubúðum í Fannardal í Norðfirði í gærkvöld. Gangamenn í Norðfjarðargöngum nýta búðirnar en þeir gista allir í Eskifirði við hinn enda ganganna.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Austurlandi gerði glöggur vegfarandi viðvart um eldinn. Guðmundur Helgi Sigfússon, slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð, var að koma yfir Oddsskarð þegar útkallið barst og var fljótur á staðinn. „Það var kominn hiti en ekki mikill eldur sjáanlegur. Þegar menn voru tilbúnir að slökkva voru gámarnir opnaðir og þá blossaði eldurinn upp,“ segir Guðmundur. Hann segir að eldurinn hafi kviknað í eldhúsgámi en slökkviliðinu hafi tekist að hindra að eldurinn færi í gegnum tengibyggingu og læsti sig í íbúðagáma. „Íbúðagámarnir eru úr timbri og voru farnir að sviðna og springa í þeim rúður,“ segir Guðmundur.

Lögreglan rannsakar eldsupptök en ekki er grunur um að kveikt hafi verið í gámunum.

 

Mynd með færslu
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV