Villtur jagúar náðist á myndband

04.02.2016 - 05:32
Myndband af jagúar í Bandaríkjunum vakti mikla athygli í gær, enda er hann eini villti jagúarinn sem vitað er um í landinu. Hann heldur til í fjalllendi Arizona-ríkis.

Talið er að El Jefe, eða Stjórinn á íslensku, sé um sjö ára gamall og hafi haldið til í Santa Rita fjallgarðinum síðustu þrjú ár í það minnsta. Hann er aðeins fjórði jagúarinn sem hefur sést í Bandaríkjunum síðustu tvo áratugi.
Dýraverndunarsinnar vonast til þess að myndbandið hjálpi til við að vernda dýrið og heimkynni þess. Kjörlendi El Jefe er ógnað því áform eru um að gera koparnámu í Santa Rita fjallgarðinum.

Jagúarar voru víða í suðvestur-ríkjum Bandaríkjanna en hurfu fyrir um 150 árum þegar rándýr voru felld til þess að vernda búfénað.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV