Vill upplýsingar um ferðir borgarfulltrúa

10.01.2016 - 15:52
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett: Anton Brink/Framsókn  -  RÚV
Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins, hefur óskað eftir upplýsingum um heildarkostnað Reykjavíkurborgar vegna utanlandsferða starfsmanna og kjörinna fulltrúa á síðasta ári. Guðfinna lagði fram fyrirspurn þess efnis á síðasta fundi borgarráðs.

Guðfinna óskar eftir sundurliðun annars vegar á kostnaði vegna starfsmanna og hins vegar kostnaði vegna kjörinna fulltrúa. 

Athygli vakti þegar borgin sendi tólf manna sendinefnd á loftslagsráðstefnuna í París um miðjan síðasta mánuð. Fram kom á Eyjunni að kostnaður við hvern á einn næmi 260 þúsund krónum og því væri heildarkostnaður 3,1 milljón króna. 

Þorleifur Gunnlaugsson, þáverandi varamaður Sóleyjar Tómasdóttur í borgarráði, lagði fram svipaða fyrirspurn í borgarráði fyrir tveimur árum. Þá nam kostnaður borgarinnar vegna utanlandsferða starfsmanna Reykjavíkurborgar rúmum 52 milljónum.

Þeir sem fóru þá oftast til útlanda eiga ekki lengur sæti í borgarstjórn en þetta voru Jón Gnarr, núverandi dagskrárstjóri hjá 365, Einar Örn Benediktsson og Björk Vilhelmsdóttir sem lét af störfum í september á síðasta ári.

Guðfinna óskar einnig eftir upplýsingum um ferðalög hjá stjórnum b-hluta fyrirtækja eftir stjórnmálaflokkum sem fóru í utanlandsferðir í fyrra.

 

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV