Vill slíta þingi á mánudag

13.08.2016 - 17:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, vill að þingi verði slitið strax á mánudag og boðað verði til kosninga innan sex vikna. Þetta segir hún á Facebook-síðu sinni í dag. Hún segir það nauðsynlegt til að hlífa landsmönnum við bulli, vitleysu og firru sem annars muni einkenna þingið næstu vikurnar.

Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur gagnrýnt þá ákvörðun formanna stjórnarflokkanna að tilkynna um kjördag og sagði í fréttum sjónvarps í gær að það hafi verið mistök að nefna dagsetningu alþingiskosninga. En er Vigdís sammála Gunnari Braga?

„Ég ætla ekkert að tjá mig um það en til þess að rifja upp þá var það þannig að ég var tilbúin til þess að rjúfa þing í vor og ganga til kosninga eins og formaður Framsóknarflokksins vildi. Úr því að vantraustið var fellt í þinginu hefði verið eðlilegast að kjósa að vori 2017. Þannig að þetta er allt saman orðið mikið klúður varðandi þessi mál,“ segir Vigdís.

Sýnir þetta ekki svart á hvítu að það er ólga í þingflokknum?

„Það er ekki ólga í þingflokknum. Það er ólga í þinginu. Og ég hef gagnrýnt þá minnihlutakúgun sem meirihlutinn situr uppi með af stjórnarandstöðunni. Þetta fólk var kosið frá völdum í kosningunum 2013. Það er annar meirihluti í landinu og hann fær ekki starfsfrið vegna frekju og óláta í ákveðnu fólki sem virðist ekki enn búið að ná sér eftir kosningaósigurinn.“

 

Mynd með færslu
Guðmundur Björn Þorbjörnsson
Fréttastofa RÚV