Vill skýran ramma um sjálfboðastörf

25.02.2016 - 17:12
Mynd með færslu
 Mynd: Þórður Kr. Sigurðsson Súð
Evelyn Ýr Kuhne kom hingað til lands frá Þýskalandi árið 1995 til þess að sinna starfsnámi í tengslum við háskólanám sitt. Hún kynntist eiginmanni sínum og fékk tækifæri til þess að starfa sumarlangt á bænum Lýtingsstöðum í Skagafirði. Hún var að sækjast eftir lífsreynslu, kaupið skipti hana litlu. Nú rekur hún gistiheimili og hestaleigu að Lýtingsstöðum ásamt manni sínum. Evelyn vill að skýr rammi verði mótaður um sjálfboðaliðastörf og starfsnám erlendra ungmenna hér á landi.

Mikil eftirspurn er eftir því að fá að sinna sjálfboðastörfum á Lýtingsstöðum. 

 

Hér má hlýða á viðtalið við Evelyn.

Að minnsta kosti þrjár leiðir

Spegillinn heyrði af þrennskonar löglegum leiðum til þess að stunda starfsnám hér á landi. Til er reglugerð um vinnustaðanám og starfsþjálfun á vinnustað en hún nær einungis utan um launað starfsnám íslenskra framhaldsskólanema. Sérstakur námssamningur þarf að liggja slíku starfsnámi til grundvallar og starfsnámið þarf að vera hluti af námsskrá. Þá geta háskólar samið sérstaklega við stofnanir sem nemendur stunda starfsnám hjá.

Á gráu svæði

Ólafur Grétar Kristjánsson, deildarsérfræðingur hjá Framhaldsfræðslu- og starfsmenntadeild menntamálaráðuneytisins segir að erlendir framhalds- og háskólar geti gert starfsnámssamninga hér á landi en segir að ekki sé til sérstakur rammi um slíkt nám, það sé á gráu svæði og erfitt að fullyrða um lögmæti þess út frá reglugerðinni.

Má enga ábyrgð bera

Í þriðja lagi geta evrópskir starfsnemar komið hingað til lands á vegum uppbyggingarsjóðs EES-svæðisins eða á vegum Erasmus. Þá þarf samningur menntastofnunar og fyrirtækis að liggja til grundvallar. Slíkt starfsnám er yfirleitt ekki launað en um það gilda ákveðnar reglur. Viðar Helgason, verkefnastjóri hjá RANNÍS, segir að starfsnemi megi til dæmis alls ekki bera ábyrgð, það væri til dæmis skýrt brot ef starfsnemi væri einn við störf í móttöku gistiheimilis, nemarnir eigi að vera í þjálfun, undir handleiðslu og störf þeirra eigi ekki að skekkja samkeppnisstöðu á markaði. Halldór Grönvold hjá ASÍ segir að þegar ekki liggi fyrir viðurkenndir námssamningar sé skýrt að um sé að ræða hefðbundna launavinnu, greiða eigi í samræmi við kjarasamninga. 

Rétt er að geta þess að ekkert þeirra mála sem Spegillinn hefur fjallað um síðustu daga varðar Lýtingsstaði. 

Mynd með færslu
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi