Vill skoða lokun landamæra Íslands

01.03.2016 - 15:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokksins vill skoða hvort snúa eigi flóttamönnum og hælisleitendum við í Keflavík og þeir sendir til síns heima. Hann segir umræðuna erfiða því góða fólkið og fjölmiðlar rífi þá í sig sem þori að opna munninn og hafa skoðun.

Ásmundur sagði við upphaf þingfundar í dag að frétt um hælisleitanda sem hótaði að kveikja í sér í gærkvöldi hafi vakið með honum óhug. Íslenskt samfélag sé ekki vant slíkum hótunum og landsmenn vilji ekki búa við það að flóttamenn og hælisleitendur þurfi að bíða lausnar sinna mála í tvö til fimm ár, það sé ekki boðlegt. 

Þingmaðurinn sagði flóttamannastrauminn stórkostlegt vandamál, Svíar og Danir hafi lokað landamærum sínum til að takmarka strauminn. Hann velti því upp hvort ástæða væri til að fara að ráðum Svía og Dana og takmarka aðgengi til landsins líkt og áður en Schengensamstarfið varð til. Þá væri mikilvægt að skoða hvort nauðsynlegt sé á þessari stundu að skoða hvort snúa eigi flóttamönnum og hælisleitendum við í Keflavík og senda þá til síns heima. 

Sjálfur segist Ásmundur þekkja hversu erfitt það sé að taka þátt í þessari umræðu, „góða fólkið“ og fjölmiðlarnir rífi þá í sig sem þori að opna munninn og hafa skoðun. Fólkið í landinu þori ekki að hafa opinbera skoðun á þessum málum og segir Ásmundur mikilvægt að þingið ræði hvort ekki þurfi að gera breytingar á opnun landamæra landsins. Nú sé mál að linni. 

Mynd með færslu
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV