Vill rannsókn á sölu Borgunar

20.01.2016 - 16:05
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, vill að Alþingi láti til sín taka vegna sölu Landsbankans á hlut í Borgun í árslok 2014 fyrir luktum dyrum og marki alvöru leikreglur. Hann krefst alvöru rannsóknar og að Fjármálaeftirlitið láti málið til sína taka. Fréttir af milljarðahagnaði nú staðfesti að þetta hafi verið kaup aldarinnar í íslensku viðskiptalífi.

„Og við hljótum að spyrja þeirra spurninga hvað réð verðmati Landsbankans nú þegar þessar upplýsingar koma uppá borðið og við hljótum að krefjast alvöru rannsóknar á því með hvaða hætti var staðið að þessari sölu,“ segir Árni Páll.

„Fjármálaeftirlitið þarf að láta þetta til sín taka og ef á þarf að halda stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og nýta þau úrræði sem Alþingi hefur til þess að fá allar staðreyndir uppá borðið í  máli sem þessu. Þetta er ekki síst mikilvægt nú þegar að fyrir liggur að ríkið þarf að selja ríkisbanka og þeir flokkar sem nú sitja í ríkisstjórn hafa skelfilega sögu af því að koma slíkum eignum í hendur aðila á markaði.“

Rætt var við Árna Pál í beinni útsendingu frá Alþingi í kvöld. Þar sagðist hann telja að Landsbankann væri rúinn trausti. „Skýringar bankastjórans núna benda til þess að bankinn hafi gert alvarleg mistök í að greina viðskiptatækifærið sem í þessu fyrirtæki, Borgun, fólst. Það er auðvitað þannig að það getur ekki nokkur maður treyst verðmati Landsbankans á fyrirtæki þegar menn heyra þessa lýsingu.“