Vill harðar aðgerðir í Straumsvík

22.01.2016 - 19:51
Mynd með færslu
Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmiðnaðarmanna, VM.  Mynd: Félag VM
Formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna segir ekkert annað að gera en að fara í harðar aðgerðir vegna stöðunnar í kjaradeilu álversins í Straumsvík. Ekki sé hægt að sýna endalaust umburðarlyndi.

 

Enn einn árangurlaus samningafundur var haldinn í kjaradeilunni í morgun í húsakynnum Ríkissáttasemjara. Fundurinn stóð í fimmtán mínútur. Samninganefnd starfsmanna réði ráðum sínum að loknum fundi og var ákveðið að hittast aftur á þriðjudaginn og ákveða framhaldið.

Guðmundur Rafnarsson formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna segir hljóðið í þeim þungt. „Ég held að eins og staðan er í dag þar sem SA og stjórnendur fyrirtækisins hafa í raun ekkert umboð til að bjóða eitt eða neitt þá sé ekkert annað fyrir okkur að gera en að fara í mjög harðar aðgerðir.“

Rio Tinto vilji hins vegar ekki starfa í samræmi við íslenskan vinnumarkað. Slíkt sé ekki hægt að sætta sig við. „Við erum núna komin í slag við auðhring sem æltar að keyra allt niður eftir sínum geðþótta sem þeir hafa víða komist upp með úti í heimi. Við eigum að segja hingað og ekki lengra og stopp.“

Þetta kalli á stuðning almennings. Guðmundur segir að hingað til hafi hann viljað horfa á hin mikilu samfélagslegu áhrif verði álverinu lokað. Nú sé hann búinn að fá nóg. „Við getum ekki sýnt endalaust umburðarlyndi gagnvart þessum aðilum. Þannig að ég er foxillur, og þegar maður er illur þá er ekkert annað að gera en fara og beita þeim meðölum sem maður hefur til að beita gagnvart svona aðilum.“

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV