Vill fund hið fyrsta um hjúkrunarheimilin

18.01.2016 - 13:16
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra vonast til að rætt verði við fulltrúa hjúkrunarheimila um rekstrarvanda þeirra við fyrstu hentugleika. Sjúkratryggingar Íslands, sem eiga að gera þjónustusamninga við heimilin, geti ekki samið umfram það sem fjárlög segi til um.

Ráðherrann segist þekkja vel vanda hjúkrunarheimilanna og vera viss um að ríki, sveitarfélög og einkaaðilar komist í gegnum vandann nú eins og hafi tekist síðustu ár. Fyrsta skrefið samkvæmt tillögu samtakanna sé að þau og forsætis-, fjármála-, og heilbrigðisráðherrar setjist yfir málin. 

„Ég hef líst yfir vilja mínum til þess að setjast yfir málin með þeim. Hvenær heldurðu að það verði? Ég skal í engu segja til um það. Það verður bara tíminn að leiða í ljós. Ég vona að það geti bara orðið við fyrstu hentugleika.“

26 milljarðar af fjárlögum í hjúkrunarheimilinn á ári

Hjúkrunarheimilin fengu fyrirframgreiðslu hjá ríkinu fyrir janúar til þess að geta greitt desemberlaun um áramótin. Í ályktun fundar Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu á föstudaginn var er skorað á ríkisvaldið að auka fjárveitingar í málaflokkinn. Nú fara um 26 milljarðar króna í hann á ári. Samtökin telja að 1,5 til 2 milljarða króna vanti í rekstur hjúkrunarheimila á árinu. Kristján Þór segir reksturinn mjög misjafnan milli heimilia samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar 2014 en samkvæmt henni skipti stærð heimilanna ekki máli:
„Heldur var niðurstaðan sú að það réðist að mestu á því hvernig væri haldið um, eða virtist vera, hvernig væri haldið um rekstrartaumana í rekstri heimilana hvernig afkoma þeirra var. Þannig að hún var mjög misjöfn.“
Samtökin skora á ríkið að ljúka þjónustusamningum við hjúkrunarheimilin. Sjúkratryggingar sjá um það fyrir hönd ríkisins og ekki tókust samningar í fyrra: 
„Veruleikinn er sá að það er fjárlagatalan sem Alþingi setur í fjárlög hverju sinni sem að setur Sjúkratryggingum Íslands í raun efri mörk í samningum um þessa þjónustu. Og þá er verkefnið að finna það með hvaða hætti hægt er að leiða út samninga innan þeirra marka. En það er nú varla gerlegt eða hvað ef það munar svona miklu? Jú það er örugglega gerlegt en það kallar á það að aðstæður hvers heimilis verði skoðaðar sérstaklega.“