Vill flytja hluta heilbrigðisdeildar HÍ

14.03.2016 - 16:01
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði á Alþingi fyrir stundu að hann hefði í nokkur ár bent á nokkra staði sem valkosti til að byggja þjóðarsjúkrahúsið. Hann segist hafa nefnt Efstaleiti og Vífilsstaði.

Hugmyndir á servéttu eða alvara?

Hann segir að það sé alla vega þess virði að skoða aðra kosti og færir fyrir því rök.  Það var Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna sem spurði forsætisráðherra um staðsetningu spítalans. Hún spurði Sigmund Davíð hvaða alvara fylgdi hugmyndum hans um að finna nýjum Landsspíta stað í Garðabæ. Hvort þetta væru bara hugmyndir á servéttu eða hvort hann hefði rætt þetta við heilbrigðisráðherra og háskólasamfélagið.  Hún sagði að Alþingi hefði samþykkt að byggja upp sjúkrahúsið við Hringbraut, ef svo ætti ekki að vera hvort það þyrfti ekki að ráðast í eðlilegu ferli.

Byggð yrði aðstaða fyrir stúdenta

Sigmundur Davíð hafnaði því að Alþingi hefði samþykkt að byggja nýjan Landsspítala við Hringbraut. Þvert á móti hefði tekið nokkra daga að semja tillögu þar sem talað var um að ráðast í nauðsynlegar endurbætur við Hringbraut. Þá sagði forsætisráðherra að byggð yrði aðstaða fyrir stúdenta í heilbrigðisdeild ef Landspítali yrði byggður á nýjum stað.

 

 

 

Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Mynd með færslu
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV