Vill fella niður fyrirbærið „uppreist æru“

14.07.2017 - 12:51
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Dómsmálaráðherra vill hætta að nota hugtökin „uppreist æru“ og „óflekkað mannorð“. Hún stefnir á að leggja fram frumvarp um breytingu á uppreist æru í haust.

Hörð gagnrýni hefur komið fram á ferlið þegar menn hljóta uppreist æru eftir að Robert Downey, áður Róbert Árni Hreiðarsson, fékk uppreist æru og endurheimti lögmannsréttindi sín. Robert hlaut þriggja ára dóm fyrir tæpum áratug fyrir kynferðisbrot gegn fjórum ungum stúlkum. Stundin greindi frá því að hann hlaut sektardóm vegna brotum gegn fjórðu stúlkunni þremur árum síðar og í síðustu viku lagði sú fimmta fram kæru gegn honum.

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra segir ástæðu til að taka ferlið til endurskoðunar. „Eftir nokkra skoðun á þessu þá sýnist mér skynsamlegast að taka þetta til heildarendurskoðunar og þá finnst mér koma helst til greina að fella niður þetta fyrirbæri sem uppreist æra er, en þá þarf um leið að gera breytingar á fjölmörgum lögum sem kveða á um það skilyrði að menn hafi óflekkað mannorð til þess að gegna ákveðnum stöðum eða embættum.“

Hún segir hugtökin uppreist æru og óflekkað mannorð til þess fallin að vekja ólgu. „Og ekki að ósekju, ég get alveg tekið undir það,“ segir hún.

Kemur til greina að kynferðisbrotamenn fái ekki að sinna löggæslustörfum þrátt fyrir endurheimt borgararéttinda

Til greina komi að takmarka rétt kynferðisbrotamanna til þess að endurheimta borgaraleg réttindi til lengri tíma, en samkvæmt núgildandi lögum geta þeir sótt um uppreist æru fimm árum eftir að þeir ljúka afplánun. Sigríður bendir á að fordæmi séu fyrir því að kynferðisbrotamenn og barnaníðingar fái ekki að gegna ákveðnum störfum. Til greina komi að slíkt eigi líka við um þá sem sinna störfum innan löggæslu. „Mér finnst það alveg koma til greina og það þarf að skoða það sérstaklega.“ 

Á borði ráðherrans liggur beiðni kynferðisbrotamanns um uppreist æru, sem ráðuneytið hefur viljað skoða sérstaklega. En gætu breytingar á lögum náð yfir þær umsóknir sem þegar hafa verið lagðar fram? „Það er bara í skoðun. Það koma reglulega, alla jafna, beiðnir um uppreist æru, og þær hafa tekið mislangan tíma í umsýslu í ráðuneytinu. Ég skoða það sérstaklega.“