Vill endurskoða bann við að hommar gefi blóð

09.09.2017 - 08:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra, segir að sér þyki ástæða til að endurskoða reglur sem banna samkynhneigðum karlmönnum að gefa blóð. Hann segir að taka verði mið af því hvernig þessar reglur hafa þróast og hvernig breyttar og mildari reglur haf reynst undanfarin ár í öðrum löndum. Um leið sé nauðsynlegt að tryggja áfram öryggi blóðþega.

 

Þetta kemur fram í svari ráðherrans við fyrirspurn Hildar Sverrisdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Óttarr segir í svari sínu að hann muni fela ráðgjafanefnd um fagleg málefni í blóðgjafaþjónustu að kanna hvort tímabært sé að breyta þeirri stefnu sem fylgt hefur verið.

Forveri Óttars í embætti heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, tók í svipaðan streng fyrir tæpum tveimur árum. Þá var það ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem svaraði fyrirspurn frá þingmanni Bjartrar framtíðar; öfugt við það sem er nú. Í svari við fyrirspurn Brynhildar Pétursdóttur sagðist Kristján Þór vilja leita leiða til að breyta reglum um blóðgjöf, þannig að samkynhneigðum karlmönnum verði heimilt að gefa blóð.