Vill ekki framhaldskóla til sveitarfélaga

12.01.2016 - 16:43
Guðríði Arnardóttur, formanni Félags framhaldsskólakennara, líst ekki vel á að sveitarfélög taki yfir rekstur framhaldsskólanna. Hætt sé við að sérhæfing skólanna láti undan. Hún óttast að menn líti á yfirtökuna sem tækifæri til að spara og skera niður.

Garðabær hefur sótt um að sveitarfélagið taki við rekstri framhaldsskólans í bænum af ríkinu. Með því að sveitarfélagið hafi yfirumsjón með öllum skólastigunum verði auðveldara að halda utan um nemendur alla skólagönguna. Möguleikar á auknu samstarfi og samnýtingu myndu aukast og auðveldara yrði að ná fram því markmiði að útskrifa nemendur 18 ára. Það er það sem Samtök atvinnulífsins vilja og þrýsta á að menntamálaráðuneytið heimili Garðabæ að reka framhaldsskólann. Nokkur ár eru frá því að Garðabæ óskaði eftir því að taka þriðja skólastigið yfir í tilraunaskyni en viðbrögð yfirvalda hafa verið dræm. Erindum ekki svarað og ekki haldnir fundir í starfshópi sem skipaður var til að fara í saumana á málinu. En hvað segja kennarar um að sveitarfélög taki yfir rekstur framhaldsskólanna.

„Burtséð frá því hvort við erum að tala um Garðabæ eða eitthvað annað sveitarfélag þá líst mér ekki vel á það,“ segir Guðríður Arnardóttir.

Hún segir að gallarnir séu fleiri en kostirnir. Í skýrslu sem Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu gerðu 2014 um yfirfærslu framhaldsskóla frá ríki til sveitarfélaga komi fram að hætta geti verið á því að námsframboð geti orðið einhæfara, flæði nemenda milli skóla geti orðið erfiðara og að ákveðinn hvati verði til að nemendur ljúki sínu námi í heimabyggð.

„ Við höfum á undanförnum árum verið að þróa ákveðna sérhæfingu í framhaldsskólunum. Það er hætt við því að þessi sérhæfing láti undan þegar sveitarfélögin taka að sér reksturinn,“ segir Guðríður.

Guðríður segist ekki sjá að þó að ríkið reki áfram framhaldsskólana komi það í veg fyrir aukið samstarf milli skólastiganna, leikskólans, grunnskólans og framhaldsskólans.

„Það hefur ekki staðið einhverju samstarfi milli skólastiganna fyrir þrifum,“ segir Guðríður Arnardóttir.

 

Mynd með færslu
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi