Vill dvalarleyfi af mannúðarástæðum

18.02.2016 - 12:20
Útlendingastofnun
 Mynd: ruv
Útlendingastofnun skýrir frestun á brottvísun fjögurra hælisleitenda þannig að ekki hefði verið farið fram á endurupptök máls þeirra. Þetta segir lögmaður tveggja þeirra, og mótmælir jafnframt þeirri skýringu. Innanríkiráðherra segir að hægt sé að gera betur í meðferð hælisumsókna.

Ákveðið hafði verið að vísa fjórum hælisleitendum úr landi í nótt - tveimur Nígeríumönnum og einum frá Ghana - sem hafa verið hér á landi í þrjú til fjögur ár og einum Írana sem verið hafði skemur. Útlendingastofnun ákvað í gærkvöld að fresta brottflutningi þeirra allra.

Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður tveggja þeirra segir að þessi ákvörðun hafi komið sér á óvart miðað við fyrri samskipti hans við stjórnvöld. Hann segir að Útlendingastofnun skýri frestunina þannig að ekki hafi verið sanngjarnt að senda mennina úr landi þegar ekki hafi verið sótt um endurupptökubeiðni til kærunefndar útlendingamála. 

Ætlar að óska eftir hæli af mannúðarástæðum

„Jafnframt var lýst undrun á því að lögmenn þessara aðila hefðu ekki gengið í slíkt, “ segir Ragnar. Hann segir að í tölvupósti sem hann sendi innanríkisráðuneytinu með afriti til Útlendingastofnunar 9. desember í fyrra hafi stjórnvöldum verið tilkynnt um ósk skjólstæðina hans um dvalarleyfi af mannúðarástæðum á Íslandi. Útlendingastofnun telji að sú yfirlýsing hafi ekki uppfyllt formleg skilyrði. Hafi beiðnin átt að berast kærunefnd útlendingamála hefði átt að framsenda hana þangað. Ragnar ætlar næst að óska eftir því við kærunefndina að skjólstæðingum hans verði veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum. 

Ráðherra spurð um málið á Alþingi

Þegar fréttastofa hafði samband við Útlendingastofnun í morgun var óskað eftir skriflegum spurningum frá fréttastofu. Þeim hafði ekki verið svarað fyrir hádegið. 

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, spurði Ólöfu Nordal innanríkisráðherra út í málið í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í morgun. Ólöf sagði að ráðuneytið væri enn að fóta sig í breyttu kerfi eftir að kærunefnd útlendingamála tók til starfa. Verið sé að skoða verklagið.

„Ég hygg að það sé alltaf ráðrúm til að gera betur og á næstuni munu sjást merki þess til hvaða skrefa verður gripið í þessu efni,“ sagði Ólöf í svari sínu á Alþingi.