Vill birta skýrslu um legu þjóðvegar um firði

05.08.2017 - 06:43
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Einar Brynjólfsson, þingmaður Pírata í Norðausturkjördæmi, hefur farið fram á að skýrsla sem Vegagerðin vann um legu þjóðvegar 1 um firði verði gerð opinber. Austurfrétt fjallar um þetta og hefur eftir Einari að hann muni ítreka kröfu sína þar sem hann hafi engin viðbrögð fengið.

Skýrslan fjallar um hvort betra sé að Hringvegurinn liggi um Breiðdalsheiði, eins og hann gerir í dag, eða Suðurfjarðaveg. Vegagerðin vann hana að beiðni innanríkisráðherra. Hún hefur ekki fengist birt opinberlega á þeim forsendum að hún sé enn einungis vinnuplagg.

Einar bar fram fyrirspurninga á Alþingi eftir að hafa fengið ábendingu frá Austfirðingi sem óskað hefði eftir að sjá skýrsluna en verið synjað um það. „Þarna er án efa um að ræða viðkvæmt plagg, enda skiptir þetta Austfirðingum í tvær fylkingar,“ er haft eftir honum á vef Austurfréttar.

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV