Vill bíða skýrslu um heildaráhrif aðgerðanna

05.01.2016 - 19:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, telur eðlilegast að bíða væntanlegrar skýrslu um heildartjón þjóðarbúsins vegna viðskiptaþvingana gagnvart Rússum, áður en tekin er ákvörðun um hvort þeim skuli framhaldið.

Rússneska matvælastofnunin lagði á aðfangadag innflutningsbann á vörur fjögurra íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja til tollabandalags Rússlands, Hvíta-Rússlands og Kasakstans. Þar með hafa tólf íslensk fyrirtæki verið sett á bannlista og verið svipt innflutningsleyfi til tollabandalagsins tímabundið. 

„Þetta er auðvitað bara áframhald á því sem við höfum verið að sjá. En auðvitað á meðan almennt innflutningsbann gildir, þá kannski skiptir það ekki öllu máli hvort fyrirtæki eru á einhverjum lista eður ei,“ segir sjávarútvegsráðherra í samtali við fréttastofu.

Sigurður Ingi rekur innflutningsbann rússnesku matvælastofnunarinnar beint til viðskiptaþvingana Íslendinga gagnvart Rússum. Utanríkisráðherra hefur sagt að ákvörðun Evrópusambandsins um að framlengja viðskiptaþvinganirnar um hálft ár, breyti engu um afstöðu Íslands.

Hefur áhyggjum af áhrifum aðgerðanna 

Formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi hefur gagnrýnt ummælin, þau hafi verið ótímabær í ljósi væntanlegrar skýrslu samstarfshóps stjórnvalda og sjávarútvegsins um heildaráhrif aðgerðanna á þjóðarbúið. Þá hljóti málið að koma til kasta ríkisstjórnar. Sjávarútvegsráðherra hefur áhyggjur af áhrifum þeirra.

„Stuðningur okkar við þetta fyrirkomulag hefur meira verið táknrænn en áhrifin aftur á móti innanlands umtalsverð og í einstökum tilvikum, sérstaklega í fyrirtækjum og byggðarlögum þar sem loðnufrysting er, getur þetta haft umtalsverð áhrif,“ segir Sigurður Ingi.

Hann vill bíða væntanlegrar skýrslu sem unnin var fyrir samráðshóp stjórnvalda og sjávarútvegsins um heildartjón þjóðarbúsins vegna aðgerðanna, aðspurður um afstöðu sína til viðskiptaþvingananna.

„Það er auðvitað eðlilegt að skoða allavega hvaða afleiðingar áframhaldandi viðskiptabanns og sú staða sem uppi er hefur bæði á þjóðarhag og einstök byggðarlög í landinu. Það hlýtur að koma til skoðunar áður en við tökum ákvörðun.“