Vill að varaformaðurinn verði kona

08.09.2012 - 18:01
Mynd með færslu
Ragnheiður Ríkharðsdóttir vill að kona fylli í skarð Ólafar Nordal sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Ólöf Nordal tilkynnti í morgun að hún hygðist hætta sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins og alþingismaður í vor.

Ólöf telur mikilvægt að þeir sem til forystu veljist geti helgað sig uppbyggingu íslensks þjóðfélags næstu átta til tíu árin. Slíku hafi hún ekki getað lofað eins og hlutirnir hafi skipast í hennar lífi. „Þess vegna tek ég þessa ákvörðun. Ég tel þetta rétta ákvörðun og ég er sannfærð um það að hún er góð fyrir Sjálfstæðisflokkinn til lengri tíma,“ segir Ólöf.

Ljóst er að tvær konur munu hverfa úr forystusveit flokksins en fyrr í vikunni setti Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, Ragnheiði Elínu Árnadóttur þingflokksformann af. Í hennar stað kom Illugi Gunnarsson.

Skiptar skoðanir virðast vera meðal flokksmanna um hvort máli skipti hvors kyns næsti varaformaður verði. Þingmaðurinn Unnur Brá Konráðsdóttir telur mikilvægt að fólk af báðum kynjum veljist til forystu í flokknum. Ragnheiður Ríkharðsdóttir segir að horfa eigi til frambærilegra kvenna í flokknum svo sem Hönnu Birnu og Ragnheiðar Elínar.