Vill að þingmenn skoði United Silicon

11.08.2017 - 14:27
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage  -  RÚV
Einar Brynjólfsson, fulltrúi Pírata í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, hefur óskað eftir því að nefndin fari í vettvangsheimsókn í verksmiðju United Silicon í Reykjanesbæ vegna lyktarmengunar frá verksmiðjunni. Hann segir að verulega skorti á lífsgæði íbúa í nágrenni verksmiðjunnar vegna mengunar frá henni og segir að það hljóti að vera skylda nefndarmanna að kynna sér aðstæður á vettvangi.

Einar sendi Valgerði Gunnarsdóttur, formanni umhverfis- og samgöngunefndar, og öðrum nefndarmönnum bréf í dag þar sem hann óskaði eftir vettvangsheimsókninni. Hann sagðist hafa átt ágætt spjall við Friðjón Einarsson, formann bæjarráðs Reykjanesbæjar, sem hefði lýst sig reiðubúinn að taka á móti nefndinni.

„Þetta er búið að vera hálfgert vandræðabarn, og vandræðaástand á þessari verksmiðju í níu mánuði eða svo. Það má kannski segja að íbúar þarna hafi að einhverju leyti verið hafðir sem tilraunadýr. Það er mín staðfasta trú að til þess að geta myndað sér skoðun sé best að fara á staðinn og skoða aðstæður," segir Einar.

Friðjón sagði í hádegisfréttum RÚV að nú væri nóg komið. Hann sagði að ef kísilverið gæti ekki starfað án þess að skapa lykt og mengun ætti að loka því strax. Sterk lykt hefur borist frá verksmiðjunni síðan í gær. Umhverfisstofnun hefur á þeim tíma fengið um 40 kvartanir. Friðjón sendi Umhverfisstofnun í morgun formlega beiðni fyrir hönd bæjarins þar sem farið var fram á fund um mengun frá United Silicon í Helguvík.

„Mér finnst þetta vera dýru verði keypt, þeir fjármunir sem þessi verksmiðja mun koma til með að skila sveitarfélaginu ef það er á kostnað heilsu íbúanna. Það verð ég að segja alveg eins og er,“ segir Einar og kveður lausn verða að finnast sem fyrst.

„Það sem ég reyndar skil ekki er að það er ekki eins og þetta sé eina verksmiðjan í heiminum sem framleiðir þessa vöru. Þær eru starfræktar víða um lönd og það heyrast ekki af þeim þvílíkar vandræðasögur eins og af þessari,“ segir Einar.