Vill að Annþór og Börkur fái tólf ára fangelsi

31.01.2016 - 12:56
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Tryggi Aðalbjörnsson
Hafið er yfir skynsamlegan vafa að Annþór Karlsson og Börkur Birgisson hafi veist með ofbeldi að öðrum fanga á Litla-Hrauni og það hafi leitt hann til dauða. Þetta segir saksóknari og telur rétt að dæma tvímenninganna í tólf ára fangelsi.

Þetta er síðasti dagur réttarhalda yfir Annþóri og Berki. Samfangi þeirra á Litla-Hrauni lést í klefa sínum 2012 en deilt er um hvers vegna.

Á upptökum úr öryggismyndavélum sést að tvímenningarnir fóru inn í klefa samfangans. Saksóknari fór í ræðu sinn í morgun yfir atferli sakborninganna á upptökum og rakti í smáatriðum mat réttarmeinafræðinga á dánarorsökinni.

Saksóknarinn brýndi fyrir dómurunum þremur að sekt tvímenninganna þyrfti að vera hafin yfir skynsamlegan vafa, ekki allan vafa, og það væri hafið yfir skynsamlegan vafa að Annþór og Börkur hefðu beitt samfanga sinn ofbeldi, enda hefðu heyrst högg og kvein úr klefa hans.

Þá sé sannað að þeir hafi viljað innheimta skuld hjá samfanganum, og af myndbandsupptökum megi ráða að mjög sterkar líkur séu á að samskipti þeirra við fangann fyrir dauða hans hafi verið fjandsamleg. Að lokum hafi verið staðfest með krufningu að fanganum hafi blætt út eftir áverka á milta.

Hann rakti langan brotaferil Annþórs og Barkar, benti á að þeir hefðu áður verið dæmdir fyrir hrottalegt ofbeldi, og sagði að ekki mætti gefa neinn afslátt af refsingunni. Samfangi þeirra hafi ekki verið þekktur sem ofbeldismaður.

Saksóknari spurði hvort réttarkerfið ætlaði ekki að fá réttláta niðurstöðu í málið fyrir fangann sem lést, eða hvort grafskriftin hans ætti að vera að hann hefði látist af óþekktum orsökum í fangaklefa á Litla-Hrauni. Saksóknarinn telur hæfilega refsingu fyrir tvímenninganna vera tólf ára fangelsi.